Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Síða 78
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201578
SKÓLAÞÁTTTAKA OG UMHVERFI 8–17 ÁRA GETUMIKILLA BARNA MEÐ EINHVERFU
Skólinn
Í 2. grein laga um grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008) er áréttað
að hlutverk þessara skólastofnana sé að stuðla að alhliða þroska og þátttöku allra
nemenda í lýðræðisþjóðfélagi og að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Grunn-
skólar á Íslandi starfa samkvæmt hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar sem
kveður á um rétt allra barna til skólagöngu í heimaskóla, óháð líkamlegu eða andlegu
atgervi (Hafdís Guðjónsdóttir og Jóhanna Karlsdóttir, 2009). Í grunnskólalögum er
gerð krafa um að skólar og kennarar komi til móts við þarfir nemenda með sérþarfir,
bæði hvað varðar námsefni og kennsluhætti, og í 9. kafla laganna er kveðið á um
að sveitarfélög skuli tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í skólum. Nemendur með
sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám, meðal annars vegna sértækra náms-
örðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga
um málefni fatlaðs fólks (Lög um grunnskóla nr. 91/2008; Lög um málefni fatlaðs
fólks nr. 59/1992). Rannsókn á skipulagi og framkvæmd stefnunnar hér á landi leiddi
í ljós jákvætt viðhorf meðal starfsfólks skóla en að það væri þó ávallt mats- og/eða
túlkunaratriði hvað fælist í námi við hæfi og hvað jafnrétti til náms væri í reynd
(Hafdís Guðjónsdóttir og Jóhanna Karlsdóttir, 2009).
Í aðalnámskrá grunnskóla segir um almenna menntun að hún stuðli að aukinni
hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Þar segir einnig að
almenn menntun skuli miða að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum
sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi
(Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012). Auk hefðbundins náms fara fjölbreytt-
ar og ekki síður mikilvægar athafnir fram innan og utan skólans sem efla færni nem-
andans á ýmsum sviðum. Má þar nefna þátttöku í félagsstarfi innan skólans (t.d. setu í
skólanefnd, skólaráði, klúbbastarfi), samskipti við jafnaldra og starfsfólk innan og utan
kennslustofu, svo sem í matsal og opnum rýmum, og ýmis önnur ábyrgðarhlutverk
sem nemendum er ætlað að gegna. Þátttaka barna í öllum þeim fjölbreyttu athöfnum
sem felast í almennu skólastarfi er því mikilvæg forsenda skóla án aðgreiningar. Höf-
undum er ekki kunnugt um rannsóknir á þátttöku íslenskra barna með einhverfu í
athöfnum í skólanum. Í greinargerð samstarfshóps um samhæfða þjónustu við nem-
endur með einhverfu kom hins vegar fram að 90% starfsfólks leik- og grunnskóla telji
þekkingu til að mæta þörfum nemendahópsins góða (Reykjavíkurborg, Menntasvið,
2010). Sambærilegar niðurstöður komu fram í nýlegri könnun meðal 863 íslenskra
kennara. Meirihluti kennaranna hafði reynslu af því að starfa með nemanda með ein-
hverfu og rúmlega helmingur þeirra hafði hlotið viðbótarfræðslu um einhverfu sem
skilaði aukinni þekkingu. Rannsakandi taldi að þekking kennara á einkennum ein-
hverfu væri nokkuð góð (Björn Gauti Björnsson, 2012). Hins vegar benda rannsóknir
til þess að foreldrar barna með einhverfu séu óánægðari með þjónustu til handa
börnum sínum en foreldrar barna með annars konar skerðingar (Dóra S. Bjarnason,
2010; Snæfríður Þóra Egilson og Sara Stefánsdóttir, 2014). Foreldrar barna með ein-
hverfu kvörtuðu meðal annars frekar en aðrir foreldrar yfir misvísandi upplýsingum
og ómarkvissri þjónustu (Dóra S. Bjarnason, 2010).