Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Síða 81
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 81
GUNNHILDUR JAKOBSDÓTTIR, SNÆFRÍÐUR ÞÓRA EGILSON OG K JARTAN ÓLAFSSON
Við mat á þátttöku barna eru gefin dæmi um tegundir athafna sem fara fram í skól-
anum (sjá töflu 2). Foreldrar eru beðnir að meta þátttökuna út frá þremur víddum,
tíðni, hlutdeild og hvort þeir telji þörf á breytingu. Með tíðni er átt við hversu oft
barnið hefur tekið þátt í tilteknum athöfnum á síðastliðnum fjórum mánuðum (átta
valmöguleikar: daglega [7] – aldrei [0]). Foreldrar eru einnig beðnir að meta hlutdeild
barnsins í þeim athöfnum sem það tekur þátt í enda benda rannsóknir til þess að mikil-
vægt sé að huga að huglægri upplifun barna og foreldra á þátttöku barnsins (Bedell
o.fl., 2011; Hoogsteen og Woodgate, 2010; Maxwell, Augustine og Granlund, 2012;
Pereira, la Cour, Jonsson og Hemmingsson, 2010; Snæfríður Þóra Egilson og Rann-
veig Traustadóttir, 2009). Í PEM-CY er þetta gert með því að spyrja að hve miklu leyti
barnið upplifi að það taki þátt, óháð því hvort barnið fær aðstoð eða notar sérstakar
aðferðir til að taka þátt í athöfnum (fimm valmöguleikar: að mjög miklu leyti [5] – að
mjög litlu leyti [1]). Að lokum eru foreldrar spurðir hvort þeir telji þörf á breytingu á
þátttöku (já [1] eða nei [0]) og þá hvers konar breytingu (fimm mögulegar breytingar).
Tafla 2. Athafnir sem fara fram í skólanum
Tegundir athafna
Nánari lýsing á athöfnum líkt
og gefið er upp í matslistanum
Athafnir í kennslustofu Hópavinna, umræðutímar, próf, tímaverkefni
Vettvangsferðir og aðrar
uppákomur á skólatíma
Ferðir á söfn, tónleika og leiksýningar,
skemmtanir og vorferðir
Félagsstarf innan skólans
Böll, opið hús, kvikmyndaklúbbur, nemenda-
ráð, nefndir, vinna við skólablað
Samskipti við jafnaldra utan
kennslustofunnar
Félagslegt samneyti í matsalnum, í frímínútum
og öðrum kennsluhléum
Ábyrgðarhlutverk á vegum
skólans
Reglubundin umsjón með ákveðnum rýmun
og verkum innan skólans
Að loknu mati á þátttöku barnsins í skólanum eru foreldrar beðnir að meta áhrif
ýmissa umhverfisþátta á þátttöku barnsins, þ.e. hvort þeir stuðli að eða dragi úr þátt-
töku barnsins í athöfnum í skólanum (sjá töflu 3). Einnig er leitast við að greina með
opnum spurningum þær leiðir sem fjölskyldan notar til að stuðla að þátttöku barnsins
(Coster, Law o.fl., 2011). Ekki verður greint frá niðurstöðum opinna spurninga listans
í þessari grein.