Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Side 131
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 131
GUÐNÝ S. GUÐBJÖRNSDÓTTIR
í greininni en árin 2006–2009, síðustu fjögur árin sem greinin var á Félagsvísinda-
sviði, voru þeir á bilinu 22–25. Fyrst eftir flutning uppeldis- og menntunarfræðinnar
á Menntavísindasvið fækkaði útskrifuðum BA-nemum í 15 árið 2010 og 17 árið 2011
en fjölgaði svo og voru 33 árið 2012, 25 árið 2013 og 37 árið 2014. Efasemdir um það
að BA-greinin myndi ná að festa sig í sessi á Menntavísindasviði reyndust því óþarfar.
Því miður liggur ekki fyrir heildstæð könnun á því hvað útskrifaðir BA-nemar í upp-
eldisfræði hafa lagt fyrir sig í frekara námi eða starfi. Mjög margir vinna þó á vettvangi
skóla og uppeldismála, þar á meðal þeir sem fóru í námsráðgjöf eða tóku kennslurétt-
indi á eftir, en einnig í velferðarþjónustu, sbr. þá sem fóru í félagsráðgjöf. Þó nokkur
fjöldi hefur farið í meistara- og doktorsnám og sinnir nú akademískum störfum. Alls
eru sex núverandi prófessorar í fjórum greinum HÍ með BA-próf í uppeldisfræði frá
skólanum og a.m.k. fimm aðrir fastir kennarar. Af þeim síðarnefndu hafa fjórir einnig
lokið doktorsnámi í greininni frá Háskóla Íslands eða Kennaraháskóla Íslands en allir
hinir hafa lokið doktorsprófi frá erlendum háskólum í fjórum mismunandi löndum.
Í áðurnefndum kynningarbæklingi um námið frá árinu 2000 er viðtal við sjö út-
skrifaða BA-nema í uppeldisfræði, sem gefur vísbendingu um hve víðtæk áhugamál
þeirra og starfsvettvangur er að loknu náminu: Einn nemi tók BA-próf í uppeldis-
og menntunarfræði 1988 og starfaði árið 2000 sem framkvæmdastjóri fræðslumið-
stöðvar í fíknivörnum. Annar útskrifaðist með BA-próf 1994, tók síðan viðbótarnám
í kennslufræði og starfaði árið 2000 sem félagsmálastjóri á landsbyggðinni. Tveir
tóku viðbótarnám í námsráðgjöf og starfa við það ásamt því að vera ferðamálafull-
trúi á landsbyggðinni og alþjóðafulltrúi í háskóla. Einn bætti við sig starfsréttindum
í félagsráðgjöf og starfaði sem forstöðumaður upplýsinga- og menningarmiðstöðvar
nýbúa. Loks eru tveir sem fóru í doktorsnám og eru nú prófessorar við HÍ (Uppeldis-
og menntunarfræði, 2000).
Að lokum má geta þess að nokkrir fyrrverandi BA-nemar hafa látið til sín taka á
opinberum vettvangi, til dæmis í stjórnmálum. Þar má nefna Sóleyju Tómasdóttur,
Unu Maríu Óskarsdóttur og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur sem allar útskrifuðust árið
1998; einnig Benedikt Sigurðarson (1982), Hafstein Karlsson (1998) og Margréti Gauju
Magnúsdóttur (2007).
PADEIA
Padeia er nemendafélag BA-nema í uppeldis- og menntunarfræði. Auk hefðbundinna
starfa sem snúa að félagslífi stúdenta hefur félagið verið öflugt í blaðaútgáfu, sem gef-
ur góða innsýn í starfsemi greinarinnar. Fyrst gaf félagið út tímaritið Uppeldi, en ekki
er ljóst hve oft það kom út. Árið 2003 hófst útgáfustarfsemi BA-nemanna að nýju með
veglegu ársriti þeirra, Padeiu, sem kom út árlega fram til ársins 2008. Við flutninginn
á Menntavísindasvið féll útgáfa blaðsins niður um tíma en það hefur komið út síðan,
þó ekki árlega. Þessi rit gefa góða innsýn í félagslíf og viðfangsefni nemenda í náminu,
efni lokaritgerða og námsritgerða, rannsóknir og viðhorf kennara og það sem er efst á
baugi í greininni hverju sinni. Ritnefndir blaðanna unnu almennt mjög gott og óeigin-
gjarnt starf, og komu blöðin sér sérstaklega vel við kynningar á náminu í uppeldis- og
menntunarfræði, innan og utan Háskólans.