Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Page 135
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 135
SIGRÚN AÐALBJARNARDÓTTIR
MENNTAVÍSINDASVIÐI HÁSKÓLA ÍSLANDS
Uppeldi og menntun
24. árgangur 2. hefti 2015
Uppeldis- og menntunarfræði 40 ára
háskólagrein á Íslandi: Framhaldsnám
við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands
Hér verður gerð grein fyrir þróun framhaldsnáms í uppeldis- og menntunarfræði við
Félagsvísindadeild Háskóla Íslands frá árinu 1990 til ársins 2009 þegar greinin færðist
undir Menntavísindasvið við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
HÁSKÓLI ÍSLANDS
Frá stofnun Háskóla Íslands árið 1911 hefur áhersla á vísindalegar rannsóknir verið
einn meginþátturinn í stefnu hans. Kraftur komst í þá stefnu með nýjum alþjóðlegum
straumum eftir 1960, bæði meðal fræðimanna og stjórnmálamanna sem tengdu
menntun og vísindaframfarir hagsæld og farsæld þjóðarinnar. Efla þyrfti mannauð
í rannsóknum til að skapa öflugra vísindastarf sem styrkti bæði þjóðlíf og nýsköpun
í atvinnulífi hér á landi og væri skerfur til rannsókna á alþjóðavettvangi. Í því skyni
þyrfti meðal annars að efla Háskóla Íslands sem vísindastofnun.1
Háskóladeildir höfðu frá fyrstu árum skólans heimild til að veita doktorsgráðu að
undangenginni doktorsvörn (Guðni Jónsson, 1961). Í fyrstu reglugerð Háskólans var
jafnframt gert ráð fyrir meistaraprófi í einni fræðigreinanna, íslenskum fræðum við
Heimspekideild (Guðni Jónsson, 1961). Skriður komst þó ekki fyrir alvöru á mögu-
leika til að stunda rannsóknartengt meistara- og doktorsnám í flestum fræðigreinum
við skólann fyrr en um 1990. Í lögum um Háskóla Íslands nr. 60/1957 (35. gr.) hafði
þó komið inn ákvæði um að háskólaráð gæti, eins og það er orðað, „ákveðið í sam-
þykkt samkvæmt tillögum háskóladeildar, að heimilt sé að ganga undir meistarapróf í
grein“. Ákvæðið var útfært aðeins nánar í reglugerð í júní 1958 og endurtekið í lögum
um Háskóla Íslands nr. 131/1990 (35. gr.) og í reglugerð fyrir Háskólann nr. 98/1993
(Lög um Háskóla Íslands nr. 60/1957; Lög um Háskóla Íslands nr. 131/1990; Reglu-
gerð fyrir Háskóla Íslands nr. 98/1993 með áorðnum breytingum, VI. kafli, Doktorar
og meistarar 55.–62. gr.).