Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Page 142
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015142
UPPELDIS - OG MENNTUNARFRÆÐI 40 ÁRA
Námsleiðirnar skiptust á deildir og námsbrautir innan Menntavísindasviðs eða
sameinuðust þeim. Meistaranámið í kennslufræði rann inn í Kennaradeild. Annað
meistaranám féll undir Uppeldis- og menntunarfræðideild. Námsleiðin Fullorðins-
fræðsla og hluti námsleiðarinnar Fræðslustarf og stjórnun, þ.e. fræðslustarfshlutinn,
sameinuðust og heyrðu nú undir nýja námsleið, Nám fullorðinna, á námsbrautinni
Menntun og margbreytileiki. Stjórnunaráherslan á námsleiðinni Fræðslustarf og
stjórnun varð aftur á móti að nýrri námsleið, Leiðtogar, nýsköpun og stjórnun, á
námsbrautinni Menntastjórnun og matsfræði. Námsleiðin Mat og þróunarstarf varð
að sérstakri námsleið á sömu námsbraut undir heitinu Matsfræði. Loks fór námsleiðin
Áhættuhegðun og forvarnir, nú undir heitinu Áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn,
undir nýja námsbraut, Sálfræði í uppeldis- og menntavísindum, sem sett var á fót að
frumkvæði undirritaðrar við sameiningu háskólanna. Í ljósi þess að nemendur síðast-
nefndu námsleiðarinnar höfðu komið víða að úr grunnnámi sínu innan félags-, hug-
og heilbrigðisvísinda, sem þótti mikill kostur, var það spurning hvað yrði um þessa
þverfaglegu aðsókn. Í stuttu máli má segja að ekki virðist hafa orðið breyting þar á.
Hugmynd að nýrri námsleið innan uppeldis- og menntunarfræði var með í fartesk-
inu við sameiningu háskólanna. Mikill áhugi hafði verið á því um langt skeið, bæði
meðal BA-nemenda og kennara í greininni, að bjóða upp á framhaldsnám í foreldra-
fræðslu og uppeldisráðgjöf til að búa fagfólk undir að styrkja foreldra í uppeldishlut-
verki sínu og efla rannsóknir á þessu sviði. Margt kallaði á framboð slíkrar námsleiðar.
Þar á meðal ríkari þekking og skilningur á þroska og velferð barna og ungmenna sem
mikilvægt er að foreldrar búi yfir. Einnig ýmsar þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér
stað síðustu áratugi, meðal annars aukin atvinnuþátttaka foreldra, flóknari fjölskyldu-
gerð og minni samvera foreldra og barna og ýmsar aðrar aðstæður sem hafa í för með
sér hraða, spennu og álag á fjölskyldur og brýnt er að takast farsællega á við. Ekki
reyndist fjárhagslega unnt, að standa að námsleiðinni, Foreldrafræðsla og uppeldis-
ráðgjöf, fyrr en sameining háskólanna átti sér stað og var hún loks í boði í fyrsta sinn
háskólaárið 2015–2016 og skipulögð í samvinnu við University of Minnesota (Háskóli
Íslands, 2015b). Undirrituð leiddi það starf. Mikilvægum áfanga var náð og létu nem-
endur sig ekki vanta þegar lagt var úr höfn.
BRAUTSKRÁNING MA-NEMA
Fyrstu meistaranámsnemarnir brautskráðust árið 1999 eftir að tekið var upp náms-
skipulag kennslu til meistaragráðu. Eftir því sem næst verður komist luku 106 nem-
endur meistaragráðu frá uppeldis- og menntunarfræðiskor á tímabilinu 1996 til 1.
júlí 2009. Þar af luku 87 nemendur meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði
(84 þeirra frá árinu 2000), 13 í kennslufræði (2006–1. júlí 2009) og sex í fötlunarfræði
(2007–1. júlí 2009) (Háskóli Íslands, 2015a).