Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Blaðsíða 143
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 143
SIGRÚN AÐALBJARNARDÓTTIR
DOKTORSNÁM
Eins og fram kom hér að framan höfðu deildir Háskólans heimild allt frá stofnun skól-
ans til að veita doktorsgráðu að undangenginni doktorsvörn. Fólk lagði fram tilbúnar
ritgerðir sínar til varnar. Skipulagt doktorsnám hófst ekki fyrr en eftir 1990 (Magnús
Guðmundsson, 2011).
Fyrstu árin var lögð áhersla á að doktorsnemendur tækju hluta námsins við erlenda
háskóla og stofnanir til að „tryggja alþjóðlega viðmiðun“ og jafnframt, eins og þá-
verandi háskólarektor Sveinbjörn Björnsson sagði, „svo að ekki tapaðist sú alþjóðlega
reynsla, sem námsmenn hafa borið með sér heim að loknu framhaldsnámi og störfum
erlendis“ (Magnús Guðmundsson, 2011, bls. 668). Frá árinu 2004 var mælt með tíma-
bundinni dvöl við erlendan háskóla en ekki gerð skilyrðislaus krafa um það.
Við Félagsvísindadeild er í fyrsta sinn vakin athygli á því í Kennsluskrá háskólaárs-
ins 1997–1998 að hægt sé að stunda skipulagt doktorsnám við deildina. Áhyggjur af
kostnaði við framboð námsins komu fram; minnt er á að forsenda þess að doktors-
nám geti hafist sé sú að fyrir liggi „fullnægjandi styrkveitingar til að standa straum
af náminu“ (Háskóli Íslands, 1997, bls. 495). Sama forsenda birtist í næstu þremur
kennsluskrám en eftir það fellur þetta ákvæði niður. Tæpum áratug síðar samþykkti
menntamálaráðuneytið sérstakar reglur um doktorsnám við Félagsvísindadeild Há-
skóla Íslands (2006).
Samhliða auknu framboði rannsóknartengds framhaldsnáms og aukinni rann-
sóknarvirkni stofnuðu kennarar uppeldis- og menntunarfræðiskorar rannsóknar-
stofur sem framhaldsnámsnemendur voru samstarfsaðilar að. Rannsóknarstofurnar
bera heitin: Fötlunarfræði, Lífshættir barna og ungmenna, Menntakerfi og RannKyn.
BRAUTSKRÁNING DOKTORSNEMA Í UPPELDIS- OG
MENNTUNARFRÆÐI
Snæfríður Þóra Egilson MSc í iðjuþjálfun var fyrsti nemandinn í uppeldis- og mennt-
unarfræði til að ljúka skipulögðu doktorsprófi undir handleiðslu leiðbeinanda árið
2005. Leiðbeinandi var Rannveig Traustadóttir, prófessor. Snæfríður Þóra var annar
nemandinn til að ljúka skipulögðu doktorsprófi frá Félagsvísindadeild, en jafnframt
fyrst til að taka allt sitt doktorsnám við deildina.
Á árunum 2001 til 2008, þegar Háskóla Íslands var skipt upp í vísindasvið, luku
sjö nemendur doktorsprófi frá Félagsvísindadeild og voru þrír þeirra í uppeldis- og
menntunarfræðiskor. Auk Snæfríðar Þóru voru það Gunnhildur Óskarsdóttir, leið-
beinandi Jón Torfi Jónasson, prófessor, og Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, leiðbein-
andi Rannveig Traustadóttir, prófessor.
Í töflu 3 má sjá nöfn þeirra doktorsnema sem hófu doktorsnám í uppeldis- og
menntunarfræði við Félagsvísindadeild fyrir sameiningu Háskóla Íslands og Kennara-
háskóla Íslands og hafa lokið doktorsprófi frá Menntavísindasviði HÍ.