Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Page 150
SAMHENGIÐ Í FRÆÐUNUM
Þegar nám í uppeldis- og menntunarfræði fluttist af Félagsvísindasviði yfir á Mennta-
vísindasvið breyttist samhengi þess óneitanlega. Það var ekki lengur í samfloti við
félagsvísindi og þær greinar sem vaxið höfðu út úr uppeldis- og menntunarfræðinni,
fötlunarfræði og náms- og starfsráðgjöf, urðu eftir á Félagsvísindasviði. Á móti kom
að framhaldsnámið fluttist í deild þar sem fyrir var stöndugt nám í stjórnunarfræði
menntastofnana, sérkennslufræði, fjölmenningarfræði og fullorðinsfræðslu. Að auki
skapaði nálægðin við kennaranámið annars vegar og við tómstunda- og þroskaþjálfa-
fræði hins vegar til annað samhengi og nýjar tengingar. En áhrif sameiningarinnar
voru ekki bara á það nám sem fluttist á Menntavísindasvið, þau voru gagnkvæm. Það
nám sem fyrir var í Kennaraháskólanum hefur breyst vegna nálægðar við uppeldis-
og menntunarfræðina. Áhrifin birtast t.d. í nánu samstarfi Uppeldis- og menntunar-
fræðideildar og Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar þar sem nokkur námskeið
eru sameiginleg og nemendur taka valnámskeið þvert á deildirnar. Hið sama á við
um kennaranám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þótt í minni mæli sé.
Einnig hefur uppeldis- og menntunarfræðin, sem og tengdar greinar á framhaldsstigi,
stuðlað að nýjum áherslum í kennslu á framhaldsstigi og nýju rannsóknarsamstarfi á
sviðinu. Loks má halda því fram að flutningur grunnnáms í uppeldis- og menntunar-
fræði í samnefnda deild á Menntavísindasviði hafi gefið deildinni ákveðna kjölfestu
eða sjálfsmynd.
Eins og lesa má um í greinum Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og Sigrúnar Aðalbjarnar-
dóttur hér að framan hefur uppeldis- og menntunarfræði verið í sífelldri mótun síðan
hún leit dagsins ljós sem fræðigrein í Háskóla Íslands. Við sameiningu Kennara-
háskóla Íslands og Háskóla Íslands átti sér stað róttæk breyting á stöðu greinarinnar,
þótt inntak hennar héldist nokkuð stöðugt. Nú stendur yfir endurskoðun á deilda-
skipan á Menntavísindasviði og má búast við því að enn á ný eigi staða og samhengi
greinarinnar eftir að breytast. Við endurskoðun deilda á sviðinu er horft til þess að
nýjar deildir verði sterkar faglegar einingar og í því samhengi mun uppeldis- og
menntunarfræði, bæði sem kennslugrein á grunn- og framhaldsstigi og sem rann-
sóknarsvið, leggja til eitt af viðmiðunum við þá vinnu.
UM HÖFUNDINN
Ólafur Páll Jónsson (opj@hi.is) er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla
Íslands og forseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar. Hann lauk MA-prófi í heim-
speki frá Calgary-háskóla í Kanada og Ph.D.-prófi í heimspeki frá Massachusetts Insti-
tute of Technology í Bandaríkjunum. Ólafur Páll hefur gefið út þrjár bækur um heim-
speki, Náttúra, vald og verðmæti (2007), Lýðræði, réttlæti og menntun (2011) og Fyrirlestrar
um frumspeki (2012) auk barnabókarinnar Fjársjóðsleit í Granada (2014).
UPPELDIS - OG MENNTUNARFRÆÐI 40 ÁRA
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015150