Dagblaðið Vísir - DV - 14.05.2010, Blaðsíða 33

Dagblaðið Vísir - DV - 14.05.2010, Blaðsíða 33
VIÐTAL 14. maí 2010 FÖSTUDAGUR 33 EINS OG Í VEGGJALAUSU HÚSI Í Danmörku býr nú upp undir einn tugur þús- unda Íslendinga. Þórir segir þá alla, eða þá af þeim sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna, hafa til- heyrt sinni „sókn“ þarna úti. „Ef við getum talið upp predikunarstaði þá voru fimm samfélög Íslendinga sem ég sótti reglulega: Það er, í Óðinsvéum, Horsens, Ár- ósum, Álaborg og Sønderborg. Á þessa staði reyndi ég að fara með nokkurri reglu, og ávallt um jólin. Starfið fór fram í gegnum Íslendinga- félögin á hverjum stað, ég fékk þau í lið með mér til að skipuleggja þetta hverju sinni,“ seg- ir Þórir og bætir við að stundum hafi félögin komið sér upp kirkjukórum. Á mörgum stöðum hafi líka verið starfræktir sunnudagaskólar fyr- ir börnin. „Það eru yfirleitt alltaf konurnar sem standa fyrir því,“ segir Þórir og brosir. „Ég vona innilega að þessir skólar haldist þótt embætti prestsins hafi verið lagt niður.“ Í Sánkti Pálskirkjunni í Kaupmannahöfn messaði séra Þórir mánaðarlega yfir vetrartím- ann, þess utan um hátíðir, og var það alltaf síð- asta sunnudag í mánuði. Í kringum prestsþjón- ustuna var safnaðarnefnd, sunnudagaskóli, kór og allt það sem prestsþjónustu heyrir til. „Reglulega voru haldnir safnaðarfundir og starfið var skipulagt,“ segir Þórir. „Það þurfti að vera ákveðin skikkan á þessu því boðleiðir þarna úti eru miklu lengri en heima. Það er ekki hægt að hringja bara í Ríkisútvarpið og segja að messa falli niður,“ segir kennimaðurinn, lyftir þykkum augabrúnunum og brosir í kampinn. „Það er sjónarsviptir að því þegar maður missir vinnustaðinn sinn, hlutverkið og verk- efnin öll. Síminn þagnar og hinn kirkjulegi vett- vangur hverfur líka, þá er eins og maður standi í húsi þar sem útveggirnir eru horfnir.“ ÞRÍR HARMLEIKIR EFTIR BROTTHVARFIÐ Ekki stendur annað til eftir því sem Þórir kemst næst en að Sendiráð Íslands í Kaupmanna- höfn haldi áfram starfsemi sinni. Hann árétt- ar að þrátt fyrir að prestsembætti Íslendinga hafi verið lagt niður njóti sendiráðið borgara- þjónustu utanríkisráðuneytisins og starfsfólk sendiráðsins hjálpi Íslendingum sem verða fyr- ir einhverju hnjaski eða lenda í vandræðum í Danmörku. Ekki er lengra síðan þessari þjón- ustu var komið á en svo að það var í utanrík- isráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þórir Jökull kveðst hafa unnið mikið með því góða fólki sem sinnir verkefnum borgaraþjón- ustunnar. „Fyrir kom að mér fannst það handa- og ráðalaust án mín,“ segir presturinn. Tvö morð voru framin í Danmörku í febrú- ar síðastliðnum þar sem Íslendingar komu við sögu. Fyrir skemmstu lést svo Íslendingur á spítala þar í landi eftir misþyrmingar nokkrum dögum áður. „Á bak við svona harmleiki er ótalið fólk sem líður mikla nauð og hefur engan að halla sér að nema prestinn sinn. Í slíkum tilfellum hafði ég stundum mikið að gera. Þegar hér var komið var ég búinn að loka búðinni, embættið horfið og framtíð mín eins og margra í mikilli óvissu. Sendiráðið gerði sitt besta í harmleikjunum í febrúar til að styðja þau sem þurftu á aðstoð að halda vegna þessara mála. En það segir sig sjálft að það stekkur enginn inn í sálusorgun sem ekki er því vanur og kann til verka. Ég verð að játa að sendiráðið hringdi í mig vegna þessara mála og spurði hvort það mætti setja fólk í samband við mig sem átti þarna um sárt að binda. Ég lít þannig á að prestur sé ekki „instant“ vara. Prestur hleypir ekki fólki að sér upp á það að loka síðan á það. Hann verður að vera í aðstöðu til að fylgja svona málum eftir og vera áfram aðgengilegur fólki. Á þessum tíma var ég að pakka niður, ganga frá sölu á íbúðinni minni og upptekinn af öllu þessu ferlega raski á högum mínum. Ég reyndi að hjálpa þessum systkinum okkar með því að leiðbeina sendi- ráðsfólkinu um praktískar leiðir og lausnir.“ Þórir var þess vegna aldrei í beinum sam- skiptum við þá sem þarna áttu um sárt að binda á meðan hann var úti. En eftir að hann var kom- inn heim setti einn aðstandandi sig í símasam- band við hann. „Ég þekki allt þetta fólk, lifandi og látið, í gegnum starf mitt þar ytra,“ segir sendiráðspresturinn fyrrverandi. KVADDI VINKONUNA Þórir átti danska vinkonu úti sem hann seg- ist hafa þurft að kveðja vegna niðurlagningar embættis síns. „Að minnsta kosti tímabundið, svona á meðan þetta óvissuástand varir. Mað- ur rífur ekki fólk úr vinnu til að fara til Íslands eins og árferðið er. Og ég stekk náttúrlega ekki beint í vinnu í Danmörku. Þar er líka atvinnu- leysi og kreppa,“ segir Þórir. Rétt er að koma því að að hann fær biðlaun í eitt ár frá íslenska rík- inu. Danskur prestur í sams konar stöðu fengi hins vegar þriggja ára biðlaun. Danska kirkjan er núna að ganga í þver- kirkjulegt samstarf sem kallast Porvoo-sam- komulagið. Þetta samkomulag gerir prestum kleift að fara á milli landa til þjónustu. Íslenskir prestar gætu samkvæmt því komist í þjónustu í Danmörku. Þórir kveðst sjá ákveðin tækifæri í þessu. „Auðvitað er hægt að hugsa alls konar hugs- anir. En maður stekkur svo sem ekki í hvað sem er. Engum er alveg sama hvar hann býr. Heim- ili mitt var í Danmörku og þegar ég kem hingað heim spyr ég mig hvað ég eigi að gera. Hver er starfsvettvangurinn? Og hvar er hann? Maður er svolítið eins og ljóðmælandinn í „Nú er horf- ið Norðurland, nú á ég hvergi heima.“. SÉRA GUNNAR TÓK VIÐ Á SELFOSSI Áður en Þórir Jökull flutti til Danmerkur hafði hann verið prestur á Selfossi í sjö ár, eða frá ár- inu 1994. Um átta mánaða skeið af þessum tíma á Selfossi var hann í þjónustu Ensku kirkjunnar, nánar tiltekið í bænum Scunthorpe í Lincoln- skíri í hinum gömlu „Danalögum“ þar sem Egill Skallagrímsson kvað sína Höfuðlausn forðum. Séra Gunnar Björnsson leysti Þóri af þá mánuði sem hann dvaldist á Englandi og tók svo við embætti sóknarprests á Selfossi þeg- ar Þórir flutti til Danmerkur. Gunnar var leyst- ur frá störfum í kjölfar kæru um kynferðislega áreitni, eins og DV og aðrir fjölmiðlar hafa fjall- að um. Það hefur ekki gengið alveg vandræða- laust að fylla í skarð séra Gunnars en ekki verð- ur farið nánar í þá sögu hér. Ekki kom til greina af hálfu Þóris að sækja um embættið á Selfossi. „Eins vænt og mér þyk- ir um sóknarbörnin mín á Selfossi finnst mér alltaf dálítið tvíbent að ætla að fara á sama stað- inn aftur,“ segir hann. „Lífið verður að halda áfram. Það er alltaf eitthvað annað sem tekur við. En vitaskuld hefur gífurlega margt breyst á Selfossi, til dæmis hefur orðið þar mikil fólks- fjölgun sem er ánægjulegt.“ Hvað finnst þér um mál Gunnars, þar á meðal að hann hafi verið leystur frá störfum þrátt fyrir sýknu? „Ég á mjög erfitt með að tjá mig um það. Eins og vitað er þótti ýmsum að þarna hefði verið gengið of hart fram gegn Gunnari. Öðr- um fannst eitthvað hafa gerst sem ógerningur væri að umbera. Þar sem við ekki vitum hvern- ig þetta var er voðalega erfitt fyrir okkur að tjá okkur um þetta mál. En kirkjustjórnin og bisk- up mátu það svo að þrátt fyrir að Gunnar hefði fengið sýknu hefðu þarna átt sér stað einhver atvik sem ekki væri unnt að horfa fram hjá.“ Spurður hvort hann skilji það sjónar- mið biskups kveðst Þórir einungis gætu tjáð sig um það ef hann vissi upp á sína tíu fingur hvað þarna gerðist. „En á meðan ég veit það ekki verð ég að una við úrskurð biskupsins og kirkjuyfirvalda, þrátt fyrir að þetta þýði talsvert mótlæti fyrir Gunnar. Eins verð ég að segja að Gunnar var og er geysivinmargur á Selfossi. Hans sakna margir þegar prestsþjónusta hans er annars vegar. Þetta er auðvitað afar sérstök staða, að vera sýknaður í réttinum en vera svo settur til hliðar.“ ÚTRÁSARVÍKINGAR GETA SNÚIÐ SÉR TIL DROTTINS Þegar blaðamaður spyr prestinn hvað hann telji að Kristur segði ef hann fengi að ræða við íslensku útrásarvíkingana í dag er Þórir skjótur til svars. „Þetta er náttúrlega alveg synd,“ segir hann og hlær. Og bætir svo við: „Þetta er náttúrlega fyrst og fremst græðgi. Þetta er fíkn í gróða, og það rangfenginn gróða. Fíkn í rangfenginn auð blindar mennina. Það er alveg eins og með fjárhættuspilarana; ég hugsa að íslenskir út- rásarvíkingar og bankamenn hafi lifað í þeirri spennu sem býr í huga og hjarta fjárhættuspil- arans. Og þetta lítur svolítið út eins og þeir hafi verið svo hræddir við að fara á mis við alla pen- ingana og allar vellystingarnar. Fólk vill gjarna grípa gæsina áður en það er um seinan. Ég álít samt að þeir geti óhræddir snúið sér til Krists Jesú og Drottins og beðið hann um hjálp í fangelsi eða utan múra þess. Hins veg- ar er ég ekki viss um að augu þeirra séu opin upp á gátt gagnvart eigin gjörðum. Ég hugsa að þeir þurfi að glenna sálarsjónir vel upp til að svo verði og kannski munu dómstólarnir verða hjálplegir í þeim efnum. Það má kannski segja það sama um ýmsa sem verið hafa í stjórnmálastéttinni á Íslandi. Þeir þurfa held ég líka að rífa upp á sér skjáina og horfast í augu við það sem þeir hafa boðið okkur upp á. Og þá meina ég ekki bara í aðdrag- anda hrunsins heldur í öll þessi herrans ár.“ SAMBAND VIÐ ÁSTVINI GLIÐNAR Þórir þurfti sjálfur að kaupa sér húsnæði úti í Danmörku. Gamla hefðin var að íslenski sendi- ráðspresturinn byggi í Jónshúsi, í íbúð sem var þar uppi í rjáfri. „Þó voru einhverjar undan- tekningar á því og meðal annarra ákváðu for- veri minn og kona hans að búa ekki þar. Í verka- hring prestshjónanna var að hafa umsjón með húsinu og starfseminni í því. Alþingi sem á hús- ið þurfti því þegar þetta var að ráða mann til að sjá um húsið og gerast umsjónarmaður þess. Það sem áður hafði verið prestssetur í Húsi Jóns Sigurðssonar var samkvæmt þessu íbúð um- sjónarmanns hússins og fjölskyldu hans og allt skiljanlegt í því samhengi. Þegar ég kom utan var því engin leið fyrir prestinn þarna inn, nema að skrifstofa mín var þarna og fundaaðstaða sem var og er þakkar- efni. Ég notaði því staðaruppbót útsends emb- ættismanns til að kaupa íbúð og borga af henni. Þar bjó ég allt þar til ég varð að yfirgefa Kaup- mannahöfn og mitt kæra Friðriksberg. Þessa heimilis sakna ég mjög, og ég mun alltaf sakna þessa tíma sem ég bjó þarna úti.“ Bjóstu einn allan tímann? „Já, ég og vinkona mín stigum ekki þetta skref að fara í sambúð. Við erum sálufélagar og vinir, gerum ýmislegt saman eins og að ferðast; sumir kalla þetta fjarbúð eða eitthvað svoleiðis. Svo er það líka vandi þegar fólk er orðið vant því að vera eitt og hafa allt fyrir sig. Þetta skref að fara að rugla saman reytum sínum er þá meira en að segja það.“ Þórir er fráskilinn en upp úr hjónabandinu slitnaði skömmu eftir að hann varð prestur. Hann á eina dóttur, Sigurveigu, sem verður 27 ára í sumar. Hún er búsett á Íslandi, er læknir, gift og á son á þriðja ári. „Það mætti vera meira samband við þau,“ segir Þórir. „Ég hef verið langt í burtu og þar er ekki eins auðvelt að rækta sambandið og þegar allir búa á sömu torfunni.“ Er þá ekki mjög jákvætt að búa nú í sama landi og dóttirin og dóttursonurinn? „Jú, vissulega. En ég verð að játa það að þetta gliðnar við að búa fjarri. Það er eins með gamla vini og félaga sem maður umgekkst reglulega áður fyrr. Það er eins og það séu ekki gagnvegir til allra, þótt ekkert hafi komið upp á. Það eru auðvitað gagnvegir til góðra vina, en það er samt sem áður eitthvað sem breytist. Við breyt- umst öll með tímanum og það hefur áhrif.“ ALINN UPP HJÁ FÓSTURFORELDRUM Foreldrar Þóris eru bæði kunn af skáldskap sín- um. Móðir hans var Ásta Sigurðardóttir, sem lést langt um aldur fram árið 1971, og faðir hans er Þorsteinn frá Hamri, eitt virtasta skáld þjóðarinnar. Þórir fæddist í Reykjavík árið 1959 og ólst fyrst um sinn upp hjá foreldrum sínum ásamt fjórum alsystkinum. Þegar foreldrarnir slitu samvistir bjuggu systkinin áfram hjá Ástu móður sinni. „Það þróaðist þannig að hún varð ekki fær um að ala önn fyrir okkur sem gerði að við fórum í fóstur hjá góðu fólki vestur á Mýr- um, á bæ sem heitir Akrar,“ segir Þórir. „Þar ól- umst við upp saman að langmestu leyti. Fóstra mín, Ingibjörg Jóhannsdóttir, býr í Borgarnesi og unir hag sínum allvel í ellinni en fóstri minn, Ólafur Þórðarson, lést árið 2003. Við héldum sambandi við foreldra okkar fyrir sunnan eins og unnt var. Og við héldum alltaf tryggð við fósturforeldra okkar og Akra eftir að við fórum að heiman.“ Þórir fór í Bændaskólann á Hólum í Hjalta- dal óvenjusnemma og kláraði búfræðinámið þar hratt og vel. Sextán ára gamall var hann því orðinn búfræðingur og vann svo í landbúnað- argeiranum í nokkur ár. Eftir það var hann til sjós um tíma. „Ég reri nokkrar vertíðir frá Ól- afsvík og Þorlákshöfn til dæmis og prófaði ýms- an veiðiskap eins og margir gera á Íslandi. En ég hugsa að áhuginn fyrir guðfræði hafi verið af tvennum toga. Annars vegar var það sögu- legi þátturinn, áhuginn fyrir því hvernig sagan hangir saman í tengslum við trúarbrögðin. Svo kom líka Kristur einu sinni til mín í draumi, lík- lega þegar ég var 26 ára. Þá bjó ég norður á Ak- ureyri en ég vann þar fyrir Búnaðarsamband Eyjafjarðar, sá um að kenna bændum bókhald á vegum sambandsins og annaðist reikningshald fyrir þá. Eftir þetta vann ég fyrir RÚVAK þarna fyrir norðan. Ég man að í draumnum sá ég ekki andlit Jesú, en vissi að það var hann sem vitjaði mín. Þetta var mjög öflugur draumur. Ég fann fyrir gríðarlegum krafti Krists. Ég tók þessu sem köll- un og fór að lesa sjálfur aðeins um kristnisögu og sækja kirkju. Á endanum varð það úr að ég gat farið að kalla mig trúaðan og ákvað að reyna að komast í guðfræðina við Háskóla Íslands. Það gekk eftir og ég byrjaði að lesa guðfræði hér fyrir sunnan haustið 1987.“ ÓRAUNVERULEIKI ANDLÁTA Hvaða áhrif heldurðu að það hafi haft á þig að alast upp hjá fósturforeldrum í stað líffræði- legra foreldra? „Það er mjög erfitt að meta það. Í fyrsta lagi veit maður ekki hvernig maður hefði orðið ef það hefði verið á hinn veginn. Það hefur auð- vitað margt verið skrifað um þessi efni, og veld- ur náttúrulega mjög hver á heldur. Við nutum góðs öryggis og atlætis, en auðvitað segir það sig sjálft að ég var að nokkru leyti úr grasi vax- inn þegar ég fór í þessa vist nær átta ára og það er ekki auðvelt fyrir fullorðna fósturforeldra að búa til eitthvað sem á að vera alveg eins og „mamma og pabbi“. Það segir sig líka sjálft að það verður aldrei eins. En okkur systkinunum finnst það mikið lán, úr því að allt var eins og það var í pottinn búið, að okkur skyldi ekki vera sundrað. Við nutum þess að eiga fallegt heimili hjá vönduðu, duglegu fólki sem bar hag okkar fyrir brjósti.“ Ásta, mamma Þóris, lést úr alkóhólisma þegar hann var tólf ára. Þórir man vel þegar honum var sagt frá andlátinu. „Ég var úti í fjárhúsum þegar fóstra mín bar mér tíðindin. Okkur öllum krökkunum brá mjög, jafnvel þótt mamma væri tekin að vera harla fjarlæg okkar daglega veruleika. Þú veist hvernig krakkar láta ef stóra systir græt- ur eða litli bróðir grætur. Þá fara allir að gráta. Svo jafnar þetta sig. Þannig var þetta líka hjá okkur. Það er svo skrítið með dauðsföll ná- kominna að þau eru svo óraunveruleg fyrst á eftir. Maður skynjar þau ekki eins og mað- ur myndi ætla fyrir fram. En svo kemur þessi veruleiki einhvern veginn skríðandi hægt og rólega og maður áttar sig á endanleikanum og sættist við hann.“ FÖÐURBETRUNGAR SJALDGÆFIR Þórir segir þau systkinin alltaf hafa fylgst vel hvert með öðru þótt það geti liðið svolítið á milli samfunda. „Við vorum samheldin þeg- ar við vorum yngri, stóðum saman eins og ein mafía. Og samheldnin er til staðar enn í dag.“ Auk alsystkinanna átti Þórir þrjú hálfsystkini en eitt þeirra er fallið frá. Þú hefur eflaust oft verið spurður, í ljósi þess hverjir foreldrar þínir eru, hvort þú hafir eitt- hvað fengist við skáldskap. „Já, og ég hef aðeins gert það en aldrei aug- lýst það neitt. En ég viðurkenni alveg að ég hef gaman af því að hnoða. Ég myndi aldrei voga mér að kalla mig skáld en ég hef gaman af hnoðinu.“ Er ekki líka svolítið snúið að bera skáldskap á borð þegar til dæmis faðir manns hefur afrek- að það sem pabbi þinn hefur gert á því sviði? „Pabbi er náttúrlega svo sérstakur og vand- aður að þessu leytinu að það fer eiginlega eng- inn í fötin hans. Það er líka stundum sagt að þeir sem fara á eftir feðrum sínum í eitthvað, sama hvað það sé, þeir verði aldrei föðurbetr- ungar. Ég hugsa að það megi til sanns vegar færa.“ kristjanh@dv.is Atvinnulaus séra þökk sé „bankabullum“
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.