Dagblaðið Vísir - DV - 22.10.2010, Blaðsíða 30
30 fókus 22. október 2010 föstudagur
Líffærastuldur
og smygl með líf-
færi landa á milli
er löngu orðið al-
þjóðlegt vanda-
mál. Og er víst
ekki í rénun. Eft-
irspurn eftir líf-
færum er miklu
meiri en fram-
boðið. Biðlist-
arnir yfir þá, sem
þurfa á nýjum líf-
færum að halda,
eru lengri en svo að nokkur vegur sé
að allir fái úrlausn sinna mála. Því
er skiljanlegt að þeir sem hafa pen-
inga og aðstöðu reyni að kaupa sér
forgang í biðröðinni. Og að alls kyns
glæpastarfsemi fylgi í kjölfarið.
Auðvitað eru það læknavísind-
in sjálf sem hafa skapað jarðveginn
fyrir þetta ástand með sínum miklu
tækniframförum. Svo kaldhæðnis-
legt sem það nú er. Hér áður fyrr urðu
menn að sætta sig við ónýtt hjarta
eða ónýt lungu. Menn dóu einfald-
lega drottni sínum þegar vélin hætti
að virka, ungir jafnt sem aldnir. Það
sátu allir við sama borð í þeim efn-
um, ríkir jafnt sem snauðir. En nú er
öldin önnur. Okkur finnst stórkost-
legt að geta lengt líf okkar, að ég tali
nú ekki um líf barnanna okkar, með
einni skurðaðgerð. En það kostar sitt.
Heilbrigðisþjónustan er ekki ókeyp-
is; í mörgum löndum heims er hún
nánast engin. Það er vitaskuld eng-
in tilviljun að það er einmitt þar sem
jarðvegur fyrir líffæraglæpi er mest-
ur.
Hin nýja mynd Baltasars Kor-
máks, Inhale, sem er frumsýnd í dag
í New York, L.A. og Reykjavík, fjall-
ar um mann sem fær að reyna þetta
á eigin skinni. Hann er saksóknari
í Santa Fe í Nýju Mexíkó og heitir
Paul Stanton. Í lokin stendur hann
frammi fyrir því að taka ákvörðun
sem varðar ekki aðeins líf og dauða
annarra einstaklinga, heldur um-
fram allt hans eigið siðferði, hvers
konar maður hann vill vera. Á ör-
stuttum tíma hrapar hann úr sinni
huggulegu millistéttartilveru niður í
mannleg undirdjúp sem hann hafði
vart órað fyrir að væru til – hvað þá
að hann ætti sjálfur eftir að lenda í
þeim. Hann lendir í raunverulegri
lífshættu, en hin andlega hætta er
þó meiri. Ef hann stígur eitt skref til
viðbótar, þá mun hann hrapa fram af
hengifluginu, glata sál sinni.
Myndin er byggð á handriti eftir
tvo höfunda sem sækja efnið í sögu
eftir þann þriðja. Baltasar er einnig
skráður fyrir handritinu, þó mér sé
ekki ljóst hversu mikið hann á í hinni
endanlegu gerð þess. En ég þykist
sjá hvað hefur dregið hann að efn-
inu. Baltasar hefur í sinni fjölbreyttu
listsköpun alltaf laðast að hengiflug-
inu, að landamærum mennsku og
ómennsku. Hann vill finna hið pó-
etíska í ljótleikanum og hryllingn-
um, og honum hefur stundum tek-
ist það, til dæmis í Mýrinni. Og hann
vill takast á við stórar siðferðisleg-
ar spurningar. Það er það sem ger-
ir hann að merkilegum listamanni.
Hann er mistækur, getur fest sig í lág-
kúru, en honum fyrirgefst það, af því
að hann er svo kröfuharður við sjálf-
an sig, svo einlægur í leit sinni að
sannleikanum. Hann glímir við kvik-
myndamiðilinn eins og hann glímir
við leikhúsið, og það er ánægjulegt
að fá að fylgjast með þeirri glímu. Af
fyrri kvikmyndum hans er ég hrifn-
astur af síðustu mynd hans, Brúð-
gumanum. Henni lét hann Tsjekhov
blása sér í brjóst, mannúð Tsjekhovs,
sem horfði alltaf óhræddum aug-
um á bresti okkar án þess að sökkva
í mannfyrirlitningu. Samneytið við
Tsjekhov hafði góð áhrif á Baltasar
sem á stundum virðist ekkert vera að
deyja úr ást á mannskepnunni.
Inhale er sjötta kvikmynd Balt-
asars í fullri lengd, önnur sem hann
gerir einvörðungu með erlendum
leikurum. Hún er þrælspennandi og
vönduð að allri gerð; frásögnin leift-
urhröð, svo áhorfandinn má hafa sig
allan við. Ætli megi ekki segja að hún
sé „a thriller with a conscience“, tryll-
ir með boðskap, eða hvernig svo sem
við viljum þýða það. Hún státar af úr-
vali góðra kvikmyndaleikara, banda-
rískra, þýskra, spænskra og franskra,
og er að sjálfsögðu leikin á ensku,
enda gerist hún í Bandaríkjunum
og Mexíkó. Hún ber vissulega sterk-
an keim af formúlumyndunum úr
Hollywood: aðalpersónur gott milli-
stéttarfólk, Stanton (Dermot Mul-
roney) aðlaðandi fjölskyldumaður,
kona hans og ung dóttir; hann er
ábyrgðarfullur en nógu kjarkaður
og harður af sér til að leggja á þau
djúp sem hann leggur á. Síðan mæta
til leiks veiklyndir og spilltir pólitík-
usar, illmenni og krimmar. Þarna er
líflegur og kjaftfor götustrákur með
forfeður í Dickens; trúðinn má að
sjálfsögðu ekki vanta, en hann vant-
aði ekki heldur hjá Shakespeare. Það
er alltaf gaman að sjá gamla brýn-
ið Sam Shephard með sína sterku
nærveru á kvikmyndatjaldinu, einna
bestur fannst mér þó Frakkinn Vinc-
ent Perez, sem fleiri en ég muna
kannski eftir úr sögulegri mynd
Chereaus, La reine Margot. Hann
leikur lækninn sem að lokum leiðir
Stanton fyrir sjónir hvernig hlutirnir
hanga saman.
Ég sé á vísir.is að Inhale var for-
sýnd í vor á alþjóðlegri ráðstefnu
við Berkeley-háskólann um líf-
færasmygl. Hún var þar í góðum
félagsskap með margverðlaun-
aðri heimildarmynd, Human Org-
an Trafficking. Meðal þátttakenda á
ráðstefnunni var Kínverjinn Harry
Wu, sem hefur barist gegn þessum
„iðnaði“ í heimalandi sínu, þar sem
hann ku vera umfangsmikill. Fyr-
ir þá baráttu mátti Wu dúsa nítján
ár í kínverskum þrælabúðum. Nú
býr hann í Bandaríkjunum þar sem
hann opnaði nýverið safn eða sýn-
ingu um fangelsin í Kína og þá „end-
urhæfingarstarfsemi“ sem þar fer
fram. Það er í Washington D.C. og
örugglega heimsóknar virði; þið get-
ið flett því upp á wikipediu eins og
svo mörgu öðru.
Til allrar hamingju eiga hvorki
Baltasar Kormákur né aðrir í okkar
heimshluta á hættu að vera sviptir
frelsinu og sendir í heilaþvott fyrir að
segja sannleikann. En sannleikurinn
er ekki alltaf einfaldur og oft finnst
okkur þægilegast að loka hann ein-
faldlega ofan í skúffu. Inhale minnir
okkur á staðreyndir sem við megum
ekki loka augunum fyrir; fyrir það á
hún skilið lof og að fara sem víðast.
Fyrsta frumsýn-
ing Þjóðleik-
hússins í haust
var óvenju síð-
búin, á föstudag-
inn var. Á fjölum
stóra sviðsins
var finnskt leik-
rit, Finnski hest-
urinn eftir Sirk-
ku Peltola. Það er
frá 2004 og hefur
verið leikið víða
við vinsældir, að
sögn leikskrár. Í handriti stendur að
það sé gamanleikur – já, líklega svona
gamanleikur eins og Kirsuberjagarð-
urinn hans Tsjekhovs hugsar maður,
eftir að hafa rennt yfir það, þó að öfg-
arnar séu hér snöggtum meiri, fars-
inn stórkarlalegri.
Verkið fjallar um finnska bænda-
fjölskyldu, beygða og brotna, jafnt
sálarlega sem félagslega. Eitt sinn
lifði þetta fólk á uppskeru jarðar sem
það aflaði í sveita síns andlits, stolt-
ur og upplitsdjarfur búandlýður; nú
skrimtir það á styrkjum frá Evrópu-
sambandinu og kemst hvorki lönd
né strönd. Sjálfsvirðingin löngu týnd
og tröllum sýnd. Hjónin á bænum
eru skilin, hann meira að segja kom-
in með eina nýja, en dúsir þó þarna
áfram með sinni fyrrverandi og teng-
dóttur.
Söguþráður leiksins spinnst út frá
því að faðirinn og sonurinn afráða að
drýgja tekjurnar með því að smygla
hrossum til Ítalíu, framhjá eftirliti
stóra bróður í Brussel. Til þess verða
þeir að losa sig við gamla klárinn sem
er að vísu orðinn harla lúinn, en þó
eins konar tákn sjálfstæðisins, seigl-
unnar og úthaldsins sem þetta fólk á
tilvist sína að þakka. Amman á bæn-
um – mikilfenglegasta persóna fjöl-
skyldunnar – hefur mesta dálæti á
hestinum, kembir honum á hverju
kvöldi. Þetta getur auðvitað ekki end-
að vel, og gerir það heldur ekki.
Í leikskránni stendur að persón-
ur Peltola séu „svipmiklar og dregn-
ar skýrum dráttum, bráðfyndnar og
harmrænar í senn. En um leið og þær
eru afgerandi eru þær trúverðugar og
kunnuglegar.“ Þetta er ugglaust satt
og rétt. Það grillir í harmleik þriggja
kynslóða á baksviði þessa verks. En
í sýningu Þjóðleikhússins var nán-
ast ógerlegt að koma auga á nokkuð
slíkt. Leikstjórinn, María Reyndal,
hefur sem sé keyrt leikmátann upp í
þann stórbrotnasta yfirleik og gassa-
gang sem ég hef orðið vitni að í Þjóð-
leikhúsinu – og ég get lofað ykkur því:
ég er ekki að ýkja. Það er frekar ein-
kennilegt að sjá svona vinnubrögð
í leikhúsi sem er á sama tíma með
Hænuunga Braga Ólafssonar í sýn-
ingu þar sem húmorinn og alvaran
vega salt í hárfínu jafnvægi. Og ekki
mjög gleðilegt. Ef öfgar leiksögunnar
kalla á eitthvað, þá er það hófstilling,
ekki áhersluauki.
Sýningin er fyrsta leikstjórnar-
verkefni Maríu Reyndal í Þjóðleik-
húsinu. Ég hef áður séð mjög fram-
bærilegar sýningar frá hendi Maríu,
bæði hjá LA og LR, en hér hefur hún
ekki verið með á nótunum, er ég
hræddur um. Það vottar varla fyrir
mannlegum dráttum hjá leikendum
sem flestir leika einhæft og uppskrúf-
að, frá upphafi til enda. Bóndakall
Kjartans Guðjónssonar var sá eini
sem nokkur leið var að kannast við
eða fá svolitla samúð með; Kjartan
er klár og smekkvís leikari sem sjald-
an klikkar. Hér fannst mér stundum
eins og hann hefði einfaldlega neit-
að að hlýða leikstjórninni, synt gegn
straumnum sem hreif alla hina með
sér ofan í svelginn. Ólafía Hrönn
Jónsdóttir leikur ömmuna, akfeita og
dimmraddaða, og reitir af sér kald-
hæðnar glósur við góðar undirtekt-
ir margra í salnum; fáum leikurum
er lagnara en Ólafíu Hrönn að veiða
hlátra upp úr áhorfendum, og hún
kann sannarlega að láta tilsvörin
hitta í mark. En hvar var sársaukinn
sem leynist í undarlegri og samsettri
sál þessarar öldnu konu sem höfund-
ur virðist hugsa sér sem eins kon-
ar þjóðartákn, líkt og hestinn? Hvar
var ljóðrænan sem einnig býr með
henni? Það var fátt um slíka drætti í
þeirri „mannlýsingu“ sem leikkonan
bar fram, eflaust í samræmi við vilja
leikstjórans.
Leikmyndin á samkvæmt hand-
riti að vera „dagstofa á litlum sveita-
bæ“. Ilmur Stefánsdóttir gerir hana að
flennistóru gímaldi sem gæti allt eins
verið veisluskáli í módernísku fjalla-
hóteli. Harla fátt finnskt eða sveitó
við það. Í leikslok dugir ekki minna
en steypa henni um koll. Myndasýn-
ingar, sem glittir í á baksviði, handan
hótelveggjanna, gefa upp umhverf-
ið; þær virtust fallegar, en veggir leik-
myndarinnar þrengja svo að þeim, að
þær njóta sín vart nema úr miðjusæt-
unum í salnum framanverðum. Í eitt
skipti gerðist það að lifandi gæðingur
var teymdur yfir baksviðið (ekki held-
ur í handriti, svo ég kæmi auga á, frek-
ar en margt fleira í sýningunni). Þetta
var gert svo skjótt að sumir áhorf-
endur urðu þess ekki varir, heyrði ég
eftir á. Klárinn oflék ekki, einn fárra
sem á sviðið stigu þetta kvöld. Þegar
ég gekk meðfram bakhlið leikhússins
að sýningu lokinni varð ég þess var
að blessuð skepnan hafði hægt sér á
gangstéttina; þar hefur naumast verið
öðrum til að dreifa. Þetta er vel van-
inn hestur: að ganga ekki örna sinna
á virðulegasta leiksviði þjóðarinnar.
Ég gef sýningunni tvær stjörnur.
Önnur fer til Sigurðar Karlssonar fyr-
ir þýðingu sem var áheyrileg, þó að
ekki sé ég dómbær á trúnað hennar
við frumtextann. Hina stjörnuna fær
Þjóðleikhúsið fyrir að taka til flutn-
ings verk sem hefði vel getað orðið
áhugavert og hugtækt, ef það hefði
verið tekið réttum tökum.
AÐ KAUPA SÉR LUNGU
Inhale
Leikstjórn: Baltasar Kormákur.
Handrit: Walter A. Doty III, John Claflin
og Baltasar Kormákur. Byggt á sögu eftir
Christian Escario.
Aðalhlutverk: Dermot Mulroney,
Diane Kruger, Sam Shepard, Vincent
Perez, Rosanna Arquette, Jordi Molla.
Myndataka: Óttar Guðnason.
Klipping: Elísabet Ronaldsdóttir.
100 mínútur
jón viðar
jónsson
leikhúsfræðingur dæmir
kvIkmyndIr
Hross í Þjóðleikhúsinu
fInnskI
hesturInn
Þjóðleikhúsið
Höfundur: Sirkku Peltola
Þýðing: Sigurður Karlsson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Margrét Einarsdóttir
Hljóðmynd og myndband:
Pierre-Alain Giraud
Tónlist: Angil and the Hiddentracks
jón viðar
jónsson
leikhúsfræðingur dæmir
leIkhÚs
Inhale „Minnir okkur á
staðreyndir sem við megum
ekki loka augunum fyrir.“
Finnski hesturinn „Fáum leikurum er lagnara en Ólafíu Hrönn að veiða hlátra
upp úr áhorfendum.“