Málfregnir - 01.12.2002, Side 5
mynduðum íslenskum orðum, þ.e. orðum
sem mynduð eru af öðrum orðum og
orðhlutum sem þegar voru til í málinu.
I íslensku eru tökuorð úr erlendum
málum talin hlutfallslega færri en í nor-
rænu málunum í Skandinavíu þótt því fari
fjarri (sem stundum hefur verið haldið
fram) að tökuorð séu beinlínis sjaldgæf í
íslensku. Sjá nánar t.d. Baldur Jónsson
(1997:167-168). Raunar er ekki hægt að
tala með nákvæmni um hvert hlutfall
tökuorða er núna í orðaforðanum því að til
þess vantar umfangsmeiri rannsóknir.
Veigamikið atriði, sem vert er að hafa
einnig í huga, er að tökuorð í íslensku
virðast oftast þurfa að aðlagast íslenskum
framburði, íslenskri stafsetningu og
íslenskum beygingum. 1 því felst t.d. að
hægt er að skrifa orðin þannig að samband
milli bókstafa og hljóða fylgi hefð í
íslensku ritmáli (squash verður skvass
o.s.frv.). Nefna má hins vegar sem dæmi
að í dönsku er oft fylgt annarri venju: þar
eru tökuorð fremur rituð eins og í málinu
sem þau koma úr (computer; copyright
o.s.frv.). A meðan tökuorð eru að festast í
sessi er raunar oft óvissa í samfélaginu um
t.d. rithátt, kyn og beygingu: skvass/
skvossl jógúrtið/jógúrtiríi o.s.frv.
Kostir nýyrða af íslenskum stofnum eru
t.d. þeir að ritháttur og beyging kemur að
mestu af sjálfu sér (það leikur enginn vafi
á því hvernig skuli rita og beygja nýyrði á
borð við vistkerfi o.s.frv.) og þau eru oft
nokkuð gagnsæ, þ.e. oft er unnt að ráða í
merkingu þeirra á grundvelli einstakra
orðhluta. Um hagnýtisrök af þessu tagi
(sem og lýðræðisrök), sem færð hafa verið
fyrir nýyrðastefnunni, sjá t.a.m. Kjartan G.
Ottósson (1997:31-32), Jón Hilmar Jónsson
(1988) og Ástráð Eysteinsson (1998).
Breytileiki í málnotkun
Einsleitni er sterkt einkenni á íslensku
málsamfélagi eins og vikið var að hér á
undan. Stundum fer þó ritmál og talmál
ólíkar leiðir í íslensku eins og í öðrum
málum. Það getur farið eftir aðstæðum
(eða s.k. málsniðum) hversu trúir íslenskir
málnotendur eru íslenskri málhefð í
orðavali eða málnotkun að öðru leyti. Eins
og í öðrum málsamfélögum, sem eiga sér
ritmál, er (eða getur verið) nokkur munur á
því sem tíðkast að skrifa og því sem fólk
segir. Ritmálið getur oft orðið dálítið
hátíðlegra eða formlegra en talmálið. Það
kemur fram með ýmsum hætti í
tungumálum en í íslensku er eitt einkenni
þessa munar fólgið í því að fólk virðist
fremur nota innlend nýyrði þegar það
skrifar enda þótt það noti e.t.v. sitt á hvað
innlend nýyrði og misjafnlega mikið
aðlöguð orð af erlendum uppruna þegar
það talar. Við formlegar aðstæður og í
ritmáli má frekar vænta orða á borð við
tölvupóstur enda þótt sami málnotandi
segi ímeil við aðrar aðstæður. I íslensku er
töluvert um þess háttar samheitapör með
mismunandi stílgildi.
Nýyrðastefna og önnur tungumál
Kristján Árnason málfræðingur telur
(1999) að íslensk málstefna sé ekki
hreintungustefna í sama skilningi og
þekkist víða um heim og sé
„einkar óviðfelldin og minnir á kynþátta-
hatur. Þetta eru hugmyndir um það að ein
tunga sé betri eða hreinni en önnur, eðlari í
einhverjum skilningi. Oft tengist þetta
stjórnmálum og fjandskap milli þjóða og
útlendingahatri. - íslensk málstefna er ekki
hreintungustefna í þessum skilningi. Það
sem sumir vilja nefna þessu nafni er
kosturinn að smíða innlend nýyrði frekar en
nota tökuorð. En þessi aðferð hentar einkar
vel þegar laga á íslensku að nýjum tímum því
að óhjákvæmilegt er að beygja og rita þau
orð sem verða hluti af íslensku máli. Sá vandi
verður oft leystur á einfaldastan hátt með því
að smiöa orð með heimafengnum orðhlutum
sem ljóst er hvernig skrifa á og beygja.“
(Kristján Árnason 1999:6)
5