Málfregnir - 01.12.2002, Blaðsíða 32
Einfaldast er þá að nota kvíslarnafnið
óbreytt sem seinni lið og það er sú regla
sem Stefán beitir oftast. Dæmi: Kvíslin
Ranunculus fær nafnið Sóley og síðan eru
tegundanöfnin brennisóley, dvergsóley,
jöklasóley o.s.frv. mynduð af því. Þetta er
auðvelt þar sem kvíslarnöfn eru stutt eða
ósamsett og jafnvel tveggja og þriggja
atkvæða nöfn eins og Sveifgras (Poa) og
Steinbrjótur (Saxifraga) geta gengið, sbr.
tegundanöfnin blásveifgras, kjarrsveifgras,
gullsteinbrjótur, snæsteinbrjótur o.fl.
Þegar kvíslarnöfn hafa fleiri atkvæði en
þrjú fer málið að vandast. Kvíslarnafnið
Arfanóra er ónothæft í samsetningum. Þá
tekur Stefán það til bragðs að nota seinni
hluta orðsins og býr þannig til tegunda-
nöfnin melanóra og móanóra enda getur
orðið nóra staðið sjálfstætt og allt eins
verið kvíslarnafn eitt sér.
Nokkur dæmi eru um að Stefán myndar
ný tegundanöfn með hljóðvarpi af kvísl-
arnöfnum eða öðrum tegundaheitum:
Dæmi: Krókarfi eða Krækill (Sagina) og
tegundanöfnin broddkrœkill, skammkrœk-
ill o.s.frv. Einnig tegundanöfnin vatnsnœli
(af vatnsnál), maríuvendlingur (af mariu-
vöndur).
Stefán lýsir þessu viðfangsefni í formála
Flóru íslands með svofelldum orðum, eftir
að hafa rætt um „latínsku nöfnin“:
„Ekki voru íslenzku nöfnin betri viðureignar.
Bæði meðal alþýðu og eins í íslenzkum
grasaritum er hinn mesti ruglingur á
plöntunöfnunum, sama plantan nefnd
mörgum nöfnum, og sama nafnið haft á
mörgum, opt fjarskyldum tegundum, nöfnin
allavega afbökuð o.s.frv. leg hef reynt að
greiða úr öllu þessu eptir beztu föngum. Opt
hefur mjer tekizt það, en stundum hef jeg
orðið að smella á plöntuna einhverju vissu
nafni, nokkurnveginn af handahófi. Hef jeg
þá einkum farið eptir því, hvert nafnið var
algengast eða víðast haft í riti, og mjer þótti
fegurst og bezt við eiga. Annað var þó verra
viðfangs. Allur fjöldinn af íslenzkum
plöntum er nafnlaus á voru máli. Var þá
annaðhvort að láta sjer nægja latinska nafnið
eitt á öllum slíkum plöntum eða nefna þær
allar einhverju íslenzku nafni, og þann kost
tók jeg, þó sú væri þrautin þyngri. Tegunda-
nöfn hef jeg víða gjört að kynsnöfnum. Þar
sem kynsnöfn eru samsett, hef jeg sumstaðar
myndað tegundarnafnið með því að skeyta
orð, er einkenni tegundina, framan við seinni
hluta kynnafnsins."
(Stefán Stefánsson 1901 :VI-VII)
Frávik Stefáns frá reglunum
Ekki verður sagt að Stefán fylgi
ofangreindum nafnareglum út í æsar.
Stundum velur hann óhentug alþýðunöfn
sem kvíslarheiti og lendir í vandræðum
með að leiða tegundanöfnin af þeim. Sem
dæmi má nefna kvíslarnafnið Vetrarlilja
(Pyrola). Síðari hlutinn -lilja hefur fasta
merkingu í málinu sem heiti á óskyldum
plöntuflokki. Því urðu tegundanöfnin,
klukkublóm, bjöllulilja, vetrarlaukur eða
grœnlilja, dálítið vandræðaleg og fylgja
ekki reglum hans.
A stöku stað í Flóru fer Stefán öfugt að,
þ.e. tekur fyrri hluta kvíslarnafnsins og
notar sem seinni hluta tegundarnafns.
Dæmi: Kvíslin Blöðkujurt (Polygonum) og
tegundirnar tjarnablaðka og túnblaðka
(kornsúra). Loks eru fáein tilvik þar sem
hann virðist ekki reyna að fylgja reglum.
Dæmi: Fjandafæla (Gnaphalium) en þar
heita tegundirnar grámulla, grámygla,
grájurt og fjandafœla. Hér er það helst
forliðurinn grá- sem tengir nöfnin saman
og því hefði verið eðlilegast að kalla
kvíslina Grájurt. Sama má segja um
kvíslina Skúfgras (Scirpus), með
tegundunum vatnsnál, vatnsnœli, mýra-
finnungi ogfitjafinnungi.
Það sést af þessu að mikið er undir því
komið að velja stutt og laggóð kvíslarnöfn
sem auðvelt er að nota í samsetningum eða
leiða af aðrar orðmyndir. Almenningur
gerir oft lítinn mun á kvísl og tegund og
telur oft að þær fyrrnefndu séu tegundir.
32