Skírnir - 01.01.1984, Page 78
74
MATTHÍAS VIDAR SÆMUNDSSON
SKÍRNIR
Móðir Kristjáns hékk við búskap áfram en giftist á nýjan leik
þegar hann var sjö ára. Helsta heimildin um barnæsku skáldsins
er ritgerð, sem út kom árið 1907, eftir Björn bróður hans. Hon-
um segist svo frá að kjör þeirra bræðra hafi versnað mjög þegar
móðir þeirra giftist á ný. Þeir bjuggu nú við harðan kost, nutu
engrar fræðslu og var haldið fast að vinnu. En eigi að síður —
snemma beygist krókurinn. Hjarta Kristjáns var fullt af skáld-
skap þegar á barnsaldri. Björn segir:
Það var opt vani Kristjáns, þá hann var einn úti, að hann gekk eða hljóp
fram og aftur um sama blettinn, og talaði upphátt við sjálfan sig. Var hann
þá að semja sögur eða vísur, og vissi þá ekkert, hvað fram fór í kringum
hann. Svitinn lak ofan af honum; stundum nam hann staðar eitt augnablik,
horfði beint fram undan sér og þaut svo á stað aftur. Fyrir þetta og margt
annað var hlegið mikið að honum og álitu sumir, að hann yrði fábjáni.8
Tíðarandinn er nærsýn skepna og söm við sig öld af öld. Innri
gerð Kristjáns var í engu samræmi við umhverfið, hlutskipti
hans aðhlátur og hrottaskapur, bæling. Snemma kom skaphiti
Kristjáns í ljós. Hann gerðist bráðlyndur og tannhvass ef að hon-
um var vegið. Um leið mislyndur: þögull og þungbúinn aðra
stundina, ofsakátur hina. Geðsveiflur, andstæður í lund sem
einkenndu hann allar götur síðan. Festuleysi, taumleysi. Enn
segist Birni bróður hans svo frá:
Margir urðu til að atyrða hann, storka honum og velja honum háðuleg
heiti. Svaraði Kristján þá all-biturlega og orkti ófagrar vísur um óvini sína,
en sjaldnast þorði hann að láta aðra en mig heyra þær. Hann elskaði móður
sína, en hataði stjúpa sinn, því hann var honum vondur.9
Að fimm árum liðnum leystist heimili Kristjáns upp. Þá var
hann 12 ára að aldri og næstu árin hraktist hann í vistum. En
vorið 1859 fór hann að Hóli á Möðrudalsfjöllum. Á Fjöllum bjó
hann síðan í 4 ár eða til 1863. Þrátt fyrir hrakninginn átti Krist-
ján nú betri ævi en áður að mörgu leyti. Hann bjó lengstum hjá
frændum sínum og gafst góður tími til lestrar og sjálfsnáms.10
Snemma fékk Kristján á sig orð sem afburða efnilegt skáld. Á
vinnumannsárum hans leið varla sá dagur að hann léti ekki
fljúga í kviðlingum og allt varð honum að yrkisefni. Hagmælsk-