Skírnir - 01.01.1984, Page 165
SKÍRNIR
HVAÐ ER RÉTTLÆTI?
161
staður er mannréttindi sem svo heita. Honum fylgir hjá báðum
trú á algilt réttlœti sem telja beri æðst allra gæða. Þessu fylgir
aftur eindregin andstaða beggja við svonefnda nytjastefnu (util-
itarianism), þá kenningu að velfarnaður fólks sé æðstur gæða,
og allt annað — þar á meðal réttlætið ef eitthvað er í það varið
— geti því aðeins talizt til gæða að það stuðli að velferð mann-
kynsins.
Um flest annað en það sem nú er talið eru þeir félagar á önd-
verðum meiði. Efnistökin eru gerólík. Bók Rawls er meðal ann-
ars, og jafnvel öðru fremur, vörn fyrir mannréttindi, studd
ýtrustu rökurn; hún er vandaðasta vörn fyrir mannréttindi sem
samin hefur verið. Bók Nozicks gengur á hinn bóginn að mann-
réttindum vísum, öldungis rakalaust. Um efnið sjálft ber líka
mikið á milli: til að mynda er Rawls jafnaðarmaður en Nozick
markaðshyggjumaður, í viðteknum skilningi þeirra orða. Það
má raunar heita að markaðshyggja Nozicks hafi orðið til sem
viðbragð við jafnaðarkenningu Rawls; og vænn hluti af bók
Nozicks er snjöll gagnrýni á kenningu Rawls. Um Vegi réttlœtis-
ins eftir Walzer er ekki ósvipaða sögu að segja. Sú bók varð
upphaflega til sem helmingurinn af fyrirlestrum á námskeiði
sem Walzer kenndi ásamt með Nozick á Harvard; það hét Fjár-
magnskerfi og félagshyggja (Capitalism and Socialism). Hinn
helmingurinn af fyrirlestrunum varð Stjórnleysi, rikisvald og
draumalandið. Bók Walzers er mikið listaverk, og hún er líka
lærdómsrík með afbrigðum ekki síður en hinar tvær.
1 viðureign minni við réttlætið hef ég kosið að hyggja fyrst
— og mest — að kenningu Nozicks, einkum vegna þess að hún
er einfaldari en hinar. í öðrum, þriðja og fjórða kafla hér á
eftir — Ólandssögu, Hagfræðingaþætti og Mannréttindamáli —
reyni ég að lýsa kenningu Nozicks, svo og sögulegum drögum til
hennar í kenningum sumra hagfræðinga. í fimmta kafla, Alræð-
isbálki, vík ég um stund að öðru efni sem er alræðishyggja
20stu aldar; hana telja frjálslyndir menn eins og Nozick sjálfur
höfuðfjanda sinn. En það er ekki allt sem sýnist: í sjötta og sjö-
unda kafla reyni ég að leiða í ljós að frjálshyggja Nozicks, sem
og ýmissa annarra höfunda, dragi óhæfilegan dám af alræðis-
hyggju.
11