Skírnir - 01.01.1984, Page 178
174
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
vörnum Nozicks fyrir frjálsan markað. Það er annar galli sem
honum er líka í mun að sneiða hjá. Eitt höfuðeinkennið á margri
eða flestri hefðbundinni frjálshyggju, allt frá dögum þeirra
Hobbes, Grotiusar og Lockes á 17du öld og fram undir okkar
daga, er að telja eignaréttinn friðhelgan. Þessu kyngdi Leó
XlIIdi og klígjaði ekki við svo sem fram er komið. Og um þetta
gátu annars jafn ólíkir höfundar og til að mynda þeir Hume
og Hegel verið á einu máli. Af þessum sökum hefur C.B. Mac-
pherson, einn ágætasti stjórnspekingur Kanadamanna, kallað
kenningar þeirra Hobbes og Lockes „eignaei nstaklingsiiyggj u“:
The Political Theory of Possessive Individualism heitir af-
bragðsbók hans um efnið.18 í mannréttindaskrá Frakka frá ár-
inu 1789 var því lýst yfir að eignarétturinn væri óskerðanlegur
og heilagur: „un droit inviolable et sacré“; og í 67du grein stjórn-
arskrár íslenzka ríkisins segir að eignarétturinn sé friðhelgur.19
Friðhelgi eignaréttarins dugar bersýnilega til að skjóta loku
fyrir það að menn séu skattlagðir — sviptir hluta af eignum sín-
um — í tekjujöfnunarskyni. Á hinn bóginn virðist liún beinlínis
krefjast þess að menn gjaldi skatt í því skyni að haldið sé uppi
lögum og reglu, enda rniði lög og reglur að því öllu öðru frem-
ur, og jafnvel því einu, að verja líf manna og limi fyrir ofbeld-
ismönnum og morðingjum, og eignir þeirra fyrir þjófum, svik-
urum og skemmdarvörgum. Þess má geta að Hayek trúir því að
skattur í þessu skyni eigi að vera nefskattur en ekki stigaskattur
ef frelsi og réttur eigi að standa.20
Nú er það einu sinni svo, hvort sem mönnum líkar það betur
eða verr, að á síðustu tímum dettur fæstum í hug að taka fulla
friðhelgi eignaréttarins alvarlega. Allt frá 1874 hefur staðið í
stjórnarskrá okkar íslendinga, til viðbótar við friðhelgisyfirlýs-
inguna um eignarétt svo rökvíslegt sem það er eða hitt þó held-
ur, að ekki megi „skylda neinn til að láta eign sína af hendi
nema almenningsþörf krefji“. Ég veit ekki til að íslenzkir frjáls-
hyggjumenn hafi beint því erindi til stjórnarskrárnefndar að
hún felli burt þennan fyrirvara um eignaréttinn. Það er ekki
nema von að frjálshyggjumenn sem búa við svo stranglega tak-
markaðan eignarétt, og sætta sig við hann að því er virðist, telji
brýna nauðsyn bera til að finna einhverja aðra forsendu til