Skírnir - 01.01.1984, Page 193
SKÍRNIR
I-IVAÐ ER RÉTTLÆTI?
189
enda sjórinn orðinn að sítrónuvatni. Ég tel víst það sé frá Four-
ier komið sem segir í kvæði séra Matthíasar:
leikur sér hjá ljóni
lamb í paradís.
Um skeið voru um það bil fjörutíu nýlendur lærisveina Fouriers
víðsvegar um Ameríku, og ég væri ekki hissa þótt sumar þeirra
standi enn, hvernig svo sem dýralífi þar er háttað.43
Önnur framtíðarsýn frá 19du öld er miklu skyldari draumum
Nozicks en þessi er. Hér er brot úr henni:
[í framtíðarríkinu] mun enginn maður hafa afmarkað verksvið, heldur
munu þeir allir eiga kost á því að efla hæfilcika sína á hvaða sviði sem er.
Samfélagið allt sér um að halda atvinnulífinu gangandi svo að nóg verði
framleitt. Fyrir vikið get ég gert eitt í dag og annað á morgun. Ég get farið
á skytterí til hádegis, og á skak seinni partinn, mjólkað áður en ég borða
og skeggrætt um bókmenntir eftir kvöldmat. Og allt þetta geri ég bara ef
ég kæri mig um, án þess nokkurn tíma að verða veiðimaður, fiskimaður,
fjósamaður eða gagnrýnandi.44
Þetta segja þeir Marx og Engels í riti sínu um þýzka heimspeki;
hið sama gæti Nozick sagt um mörg af draumlöndum sínum,
þótt hann geri líka ráð fyrir ýmsum öðrum óskemmtilegri. Nema
hvað þar sem stendur „í framtíðarríkinu" í þýðingu minni segja
þeir kumpánar sjálfir „in der kommunistischen Gesellschaft".
Það útleggst: i sameignarríkinu. Hjá Nozick yrði það auðvitað í
séreignarríkinu sem þessi draumur rættist og margir aðrir.
Og fleira mætti telja en draumsýnir. Öll bók Nozicks er inn-
blásin og uppljómuð af ímyndunarafli höfundarins, heilbrigðri
skynsemi hans og öðru andlegu fjöri. En máttarviðir þessa fjöl-
skrúðuga jurtagarðs eru aðeins þeir tveir sem ég nefndi: frelsi
og réttlœti. Og um þetta tvennt nýtur hann, og neytir óspart,
tveggja máttugra hugmynda og hefur báðar þegar borið á góma
á þessum blöðum. Önnur er frelsishugmyndin um mannréttindi,
um náttúrlegan, upprunalegan, óskoraðan og jafnvel heilagan
rétt hvers mannsbarns til lífs og nokkurra lífsgæða, rétt sem eng-
inn maður og ekkert samfélag getur af þessu barni tekið. Hér
að framan hef ég leitt rök að því að þetta frelsi verði í höndum
Nozicks að eignarétti einum saman. En lesandinn ætti að gefa
því gaum að ég hef engin rök leitt að hinu að mannréttindi séu