Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 22
284
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
virðist alls ekki vera: skipuleg og skýrt upp byggð ritgerð um
ákveðið viðfangsefni, sem sé grundvallaratriði guðfræðinnar.
Þannig fjallar t.d. fyrsti hlutinn um guð, sköpun heimsins, sköpun
englanna, sköpun mannsins, syndafallið og nauðsyn endurlausnar-
innar, og er varla unnt að setja þennan hluta guðfræðinnar fram á
rökréttari hátt. Ef litið er á tengslin milli formsins og innihaldsins,
kemur í ljós að þessi skýra efnisskipan stafar af því að „lærisveinn-
inn“ veit alltaf nákvæmlega hvaða spurningu hann á að bera upp og
getur því stjórnað samtalinu, og hef ég ekki fyrir hitt þvílíkan
discipulum á öllum mínum ferli. Um Konungsskuggsjá gegnir hins
vegar allt öðru máli: þar mótast framvinda verksins oft á tíðum af
því að „sonur“ hefur ekki nema óljósa eða þá alls enga hugmynd
um það hvaða spurningu hann gæti borið upp næst. Þetta kemur
skýrt í ljós, ef við reynum að skilgreina nákvæmlega hlutverk
„sonar“ í samtalinu í heild, en það er fyrsti lykillinn að gátunni um
efnisskipan verksins.
Aðalatriðið í persónuleika „sonar" er það að hann hefur
ákveðna fyrirætlun í lífinu: hann ætlar að fara landa á milli meðan
hann er á léttasta skeiði og sjá annarra manna siði, og því vill hann
stunda kaupmennsku, en eftir þennan undirbúning ætlar hann að
ganga í þjónustu konungs eins og faðir hans gerði á sínum tíma.
Það er þessi fyrirætlun „sonar“ sem ræður skiptingu verksins í þrjá
bálka, og hefst hver bálkur á því að „sonur“ ákveður umræðuefnið
með því að spyrja um starf og siði þeirrar stéttar manna sem hann
hefur áhuga á, fyrst kaupmanna, síðan konungsmanna og loks
konungsins sjálfs.
Fyrir utan þetta hefur „sonur“ yfirleitt mjög óljósar hugmyndir
um gagnleg eða áhugaverð umræðuefni og heldur litla framtaks-
semi. Stundum vill hann að „faðir“ ráði alveg ferðinni: „en ef yður
sýnast nokkrir hlutir enn nauðsynlegir eftir þessarar ræðu, þá vil ég
gjarna með athygli til hlýða“ (bls. 5). Þegar „sonur“ spyr ákveð-
innar spurningar, er það oftast eitthvert atriði í fyrri svörum
„föður“ sem er kveikjan, og eru ýmis afbrigði af því. Stundum er
spurning „sonar“ beint framhald af næsta svari „föður“ á undan,
stundum tekur „sonur“ eitt atriði út úr svari „föður" og spyr nánar
um það, eða hann tekur upp aftur umræðuefni sem nefnt var löngu
áður og vill nú fá nánari upplýsingar um það. Loks kemur það