Skírnir - 01.09.1991, Page 24
286
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
fyrsti kafli og tveir hinir næstu séu í rauninni inngangur alls
verksins, þ.e. samtalanna beggja, og séu ásamt formálanum hluti af
umgerð þess. Ætla ég því að láta þessa kafla og þau vandamál sem
þeim fylgja liggja á milli hluta að þessu sinni og snúa mér að
meginviðfangsefninu, kaupmannabálkinum.
IV
Fyrsti bálkurinn hefst síðan með því að umræðuefnið, kaupmenn
og siðir þeirra, er afmarkað í fjórða kafla, og hann nær alveg til
loka fyrra samtalsins í kafla 26, þannig að hann teygir sig samtals
yfir 23 kafla. Fjórði kaflinn er aftur e.k. inngangur að þessu um-
ræðuefni, þar sem einkum er sett fram sú hugmynd að kaupmenn
séu misjafnir, annars vegar „réttir“ kaupmenn og hins vegar
„mangarar eða falsarar", en síðan skiptist allur bálkurinn í tvo að-
greinda hluta. Þeir eru þó ákaflega misjafnir að lengd, því fyrri
hlutinn nær einungis yfir tvo kafla, en hinn síðari yfir það sem
eftir er, sem sé mest allan bálkinn, og er þess vegna ljóst, að þessi
skipting þarfnast einhverra skýringa og réttlætingar.
Hvað snertir spurningar og umræðuefni myndar fyrri hlutinn
afmarkaða heild. Hefst hann á því að „sonur“ spyr mjög almennrar
spurningar um siði þeirra kaupmanna „er vel þykja vera í þeirri
íþrótt“ og heldur síðan áfram í næsta kafla á eftir á þann hátt að
„sonur“ spyr einfaldlega hvort eitthvað fleira megi segja um þetta
sama umræðuefni. í samræmi við þetta eru svör „föður“ samansafn
af stuttum ráðleggingum um líf og starf kaupmanna yfirleitt, og eru
þær á köflum svo sundurlausar og að því er virðist ruglingslegar,
að það eitt gæti virst góð réttlæting fyrir þeim „atómisma" sem
áður var nefndur. Vera má, að þessum ráðum sé á einhvern hátt
raðað eftir kerfi, þótt of langt mál yrði að athuga slíkt hér, en tvö
stef koma skýrt fram í þessum hluta kaupmannabálksins. I 5. kafla
eru ráðleggingarnar settar fram innan ákveðins ramma, sem er
lýsing á einum degi í lífi kaupmannsins þar sem hann er staddur í
einhverjum ótilgreindum kaupstað. Er lögð svo mikil áhersla á
þennan ramma að það er eins og aðalatriðið sé ekki ráðin sjálf
heldur stundaskráin. Samt sem áður hefur þessi lýsing á einum