Skírnir - 01.09.1991, Síða 25
SKÍRNIR
EFNISSKIPAN KONUNGSSKUGGSJÁR
287
degi engan skýran enda, heldur rennur hún beint út í e.k. klasa af
ráðum sem eru af hinu ólíkasta tagi, eins og aðalreglan sé sú að
hlaupa sem móst úr einu í annað. Nær þessi klasi yfir lok fimmta
kafla og mestan hluta hins sjötta. En í lok hans kemur svo síðara
stef þessa hluta kaupmannabálksins, en það er röð af nákvæmum
ráðleggingum um það hvernig kaupmaðurinn, sem leggur ekki
stund á þetta starf nema ákveðinn hluta ævinnar, eigi að fara að
þegar fé hans tekur að vaxa, hvernig hann eigi að fjárfesta og síðan
að draga sig í hlé úr kaupmennsku. Það er sem sé fjallað um lok
ferilsins í þessu ákveðna starfi.
Með þessum ráðum lýkur fyrri hluta kaupmannabálksins, og
þar sem endir þeirra lítur nánast út sem e.k. lokaorð um feril kaup-
mannsins gæti lesandinn haldið að þetta umræðuefni sé nú þrotið
og gæti þarna staðið amen eftir efninu. I þessum tveimur köflum er
heldur ekki neitt sem gerir beinlínis ráð fyrir neinu framhaldi um
þetta sama viðfangsefni. En „sonur" er samt ekki ánægður, og
hann tekur eitt af fjölmörgum ráðum „föður“ út úr þessari orð-
ræðu og spyr nánar um það. Einhvers staðar í miðjum sjötta
kaflanum hafði „faðir“ sagt, innan um önnur allsendis óskyld ráð:
„nemdu og vandlega birting lofts og himintunglagang, dægrafar
og ættaskipan og kunn vel marka hversu þverr eða fer ókyrrleikur
sjóar, því að það er fróðleikur mikill og þó nauðsynlegt að kunna
þeim er farmenn vilja vera“ (bls. 5). Rifjar „sonur“ nú upp þessa
setningu nánast því orðrétta og vill fá ítarlegri skýringar, og tekur
hann það sérstaklega fram að hann skilji illa tengslin sem séu milli
rásar sólarinnar og hræringar hafsins. A þennan hátt byrjar ný
umræða í sjöunda kaflanum og heldur áfram með margvíslegum
útúrdúrum til loka þessa bálks, og mætti skilgreina þessi þáttaskil
þannig að á eftir ráðleggingum um líf og starf kaupmanna komi nú
„siglingafræði". En ýmislegt fleira býr þó undir.
Sú orðræða „föður“ sem nú fer á eftir í þessum kafla og er hin
lengsta í öllum kaupmannabálkinum kemur nokkuð á óvart, því
hún getur ekki talist neitt beint svar við skýrri og ótvíræðri spurn-
ingu „sonar“. Byrjar „faðir“ á því að lýsa rás sólarinnar á sumardegi
yfir allt himinhvolfið og átta áttir þess, sem eru jafnframt vindarnir
persónugerðir og bústaðir þeirra. Þessari heimsókn til vindanna
átta, eins og sólargangurinn er skilgreindur, og viðbrögðum þeirra,