Skírnir - 01.09.1991, Page 26
288
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
þegar þeir klæðast gleðiklæðum, fara að blása blíðlega og þar fram
eftir götunum, er lýst með ákaflega miklu málskrúði. Eitt lítið dæmi
valið af handahófi nægir til að sýna stílinn: „en að miðjum degi
sýnir sunnanvindur sig efldan vera með yljar auðæfum, sendir
varmar vingjafir norðanvindi og vermir svalt andlit og býður öllum
grönnum sínum að miðla við þá af gnótt síns auðar“ (bls. 7-8).
Fyrir utan orðskrúðið er stuðlasetningin talsvert áberandi, og blæs
andagift „föður“ svo mjög út í þessari vindalýsingu, að á einum
stað er jafnvel hálf vísa með fornyrðislagi falin í textanum:
þá tekur þar fyrst dagur
upp að létta
austanvindi
silfrligar brýnn
og blítt andlit (bls. 7).8
I þessari persónugervingu vindanna eru þeir kallaðir „höfðingjar"
og að lokinni lýsingunni á sólargangi og vindum á sumardegi út-
skýrir „faðir“, að þegar friður ríki á þennan hátt milli höfðingjanna
geti menn siglt yfir höf og farið hvert á land sem þeir vilji.
Án þess að gera nokkurt hlé á máli sínu áminnir „faðir“ menn
um að laga hegðun sína eftir þessum árstíðaskiptum, þar sem
náttúran sjálf geri það: „væri það mönnum skyldlegt og þó nauð-
synlegt að kunna góða skilning á því nær háskatímar væri og ófærir
eða nær þeir tímar kæmi er vel er til hættanda alls, því að skiln-
ingarlaus skepna gætir þessara tíma“ (bls. 8). Síðan tekur „faðir“
ýmis dæmi úr hinni lifandi náttúru til að sýna hvernig hún bregst
við „sættargerð" höfðingjanna, eins og hann segir. Málskrúðið er
jafn mikið og í lýsingunni á vindunum, og er allur stíll og áferð
þessa langa sjöunda kafla í mjög sterkri andstöðu við það sem á
undan var komið. I lok kaflans segir „faðir": „nú veldur þessi
sáttmála samtenging milli þessara átta vinda allri blíðu lofts eða
lands eða sjóar hræring með boðorði og leynilegum smíðvélum
þess er fyrir öndverðu skipaði að svo skyldi jafnan síðan standa til
þess er hann býður að brigð skyli á gerast“ (bls. 9).
8 Þessu tók Magnús Ólsen eftir, sbr. „Vers i Kongespeilet“, Maal og Minne 1915,
bls. 178.