Skírnir - 01.09.1991, Page 34
296
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
innar“, og nú lýsir hann því heildarkerfi - loftslagsbeltunum fimm -
sem skýrir þennan mismun. Sama hugtakið, „vegur sólarinnar", er
hér tekið upp aftur. Þannig er eins og „faðir“ sé að sveigja aftur inn
á fyrra umræðuefnið, sem ég kallaði upphaflega „siglingafræði“, án
þess þó að landafræðiköflunum sé fyllilega lokið.
Því enn er spurningum „sonar“ um Grænland ekki fullsvarað, og
í síðari hluta 22. kafla snýr „faðir“ sér að síðasta atriðinu, norður-
ljósunum. Byrjar hann á að lýsa þeim rækilega og kemur svo fram
með þrjár mismunandi skýringar á þessu fyrirbæri. Hallast hann að
lokum að einni þeirra, en án þess þó að færa nokkur rök fyrir þeirri
skoðun sinni. „Sonur“ er ekki fyllilega ánægður og biður um nánari
útskýringar, bæði á norðurljósunum og loftslaginu á Grænlandi.
Þær ná yfir kafla 23, en að þeim loknum tekur „faðir“ skýrt fram að
þetta umræðuefni sé nú útrætt. Það er athyglisvert, að þessi langi
þáttur um norðurljósin er byggður upp á nokkuð svipaðan hátt og
þátturinn um eldvirkni og píslarstaði á Islandi, eins og bergmál af
honum, og hann endar á því að norðurljósin eru tengd við jökla og
frost á Grænlandi og einnig við þann hita sem „faðir“ telur að sé í
iðrum jarðar. En hér koma hvorki píslarstaðir né nokkur önnur
yfirnáttúruleg fyrirbæri við sögu.
Með 23. kafla er landafræðiköflunum endanlega lokið, en þó
eru ekki nein þáttaskil hér í líkingu við það sem var þegar þessir
landafræðikaflar hófust. Það stafar af því að þegar í 22. kafla var
„faðir“ búinn að taka upp aftur þann þráð sem var á undan þessu
langa innskoti og snýst framhald samtalsins nú um hann. „Sonur“
spyr nánar um loftslagsbeltin fimm, því hann á erfitt með að skilja
að einnig sé kuldabelti á suðurhveli, og fær hann að þessu sinni
skilmerkilega heildarskýringu á gangi sólarinnar eftir loftslags-
beltum og hvelum jarðar, sem nær yfir allan 24. kafla. Þar lýkur
loksins þeirri umræðu sem hófst í 8. kafla og gefa lokaorð „föður“
samhengið nú mjög glöggt til kynna og einnig það að siglinga-
fræðin, sem við höfum kallað svo, sé nú útrædd. „En nú ef þessir
hlutir skiljast þér allir vel er við höfum nú um rætt þessar stundir,
hvort tveggja um dægrafar eða sólargang eða allir aðrir þeir hlutir
er við höfum þar um rætt, þá máttu vera fyrir því fullgóður far-
maður, að fáir munu um slíka hluti fleira spurt hafa en þú“ (bls.
35).