Skírnir - 01.09.1991, Síða 37
SKÍRNIR
EFNISSKIPAN KONUN GSSKU GGSJÁR
299
lýsing á einu ári í lífi farmannsins, frá því að unnt er að sigla að
sumarlagi, gegnum allar árstíðirnar, og þangað til siglingar hefjast á
ný. Þannig finnum við sumarið í 7. kafla, haustið og veturinn í 25.
kafla og vorið og upphaf siglinga í 26. kafla. Með þessari skýru og
skáldlegu mynd af einu ári fylgir sú kenning, sem er angi af gömlu
heimspekikenningunni „naturam sequi“ og „faðir“ leggur mikla
áherslu á, að menn eigi að haga lífi sínu og athöfnum eftir árs-
tíðum, eins og dýrin gera og reyndar öll lifandi náttúra. Það er
fyrst og fremst þessi ákveðni „rammi“ sem skapar formlega ein-
ingu seinni hluta kaupmannabálksins, og leiðir af honum að skilin
á eftir 6. kaflanum verða að teljast mun mikilvægari og djúp-
stæðari en þau skil sem verða þegar „sonur“ tekur upp „gaman-
samlega ræðu“, þótt annað kunni að virðast við snöggan yfirlestur
bálksins.
En jafnvægi þessarar skýru myndar af ársins hring í lífi
farmannsins riðlast síðan við það, að inn í þann hluta hennar sem
lýsir sumrinu er skotið meginmáli alls kaupmannabálksins, löngum
orðræðum um það athæfi farmannsins sem tilheyrir sumrinu,
siglingar og ferðalög. Á þennan hátt skapast mikið misræmi milli
árstíðanna, sumarsins sem nær yfir átján kafla og vetrarins sem er
afgreiddur í fáum málsgreinum, en jafnframt verður til ný og
ákaflega skýr formgerð sem er samhverf. Má lýsa henni þannig,
að inn í rammann, sem frá þessu sjónarmiði er fyrst og fremst
skáldleg lýsing á því hvenær unnt er að sigla og hvenær ekki, er
felld skipuleg framsetning á þeim fræðum sem nauðsynleg eru fyrir
siglingar, og í miðjunni eru loks lýsingar á takmarki ferðarinnar,
úthafinu og framandi löndum. Uppbygging af þessu tagi er í
tónlistinni kölluð ABA-form, og ef það er útfært mjög stranglega
getur árangurinn verið dauður og vélrænn. Slíkt gerist þó ekki í
kaupmannabálkinum, því smávægilegri óreglu er smeygt inn í
þráðinn með því að gera fyrst mjög skörp skil milli fyrsta hlutans
og miðhlutans en flétta síðan saman lok miðhlutans og upphaf
þriðja hlutans, þannig að þar verða skilin óljós. Við það verður
samhverf formgerð þessa texta „mýkri“, ef svo má segja, því hún er
ekki gefin samstundis. Skyldleiki þessa forms við sónötuformið í
tónlist, sem þróaðist nokkrum öldum síðar, er svo augljós að ég
ætla að láta hann liggja milli hluta að þessu sinni.