Skírnir - 01.09.1991, Page 38
300
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
Á þennan hátt má skilgreina heildarbyggingu þessa hluta
kaupmannabálksins, en hægt er að ganga enn lengra í að rekja
sundur víravirki þessa texta í smærri atriðum. Ef litið er á þær
löngu orðræður sem felldar eru inn í „rammann“, kemur í ljós, að
þótt þær virðist efnismiklar og fjölbreyttar, eru þær fléttaðar saman
úr þremur meginstefjum sem tengjast á ýmsa vegu:
1) Fyrsta stefið er það sem ég hef hingað til kallað „siglinga-
fræði“. Þessa nafngift má réttlæta með því að í þessum fræðum eru
ýmsar almennar tilvísanir til þess að þau séu gagnleg fyrir
farmennsku, en í raun og veru er umræðan á nokkuð öðru sviði:
þetta stef snýst sem sé fyrst og fremst um þau fyrirbæri náttúr-
unnar sem skandera tímann og skapa hinar ýmsu bylgjulengdir
hans. I textanum sprettur það á vissan hátt upp úr vinda- og
árstíðalýsingunum í „rammanum“ og svo þróast það áfram gegn-
um kafla 8, 9, 22 og 24. Lætur „faðir“ sér ekki nægja að skilgreina
fyrirbærin heldur leitast hann einnig við að skýra mismun þeirra
eftir stöðum og setur hann að lokum upp í heildarkerfi.
2) Annað stefið er svo sannleiksgildi frásagna af fyrirbærum,
sem ekki er hægt að sjá með eigin augum og sannreyna vegna
fjarlægðar þeirra. Þetta stef er í byrjun tengt hinu fyrra, því „faðir“
gengur út frá því að ýmis fyrirbæri séu mismunandi eftir löndum
og síðan notar hann alþekkt fyrirbæri til að færa rök að því með
alls kyns samanburði að önnur og meira framandi séu í sjálfu sér
ekki ósennilegri og því ástæðulaust að véfengja frásagnir af þeim.
Byrjar þessi samanburður í 9. kafla, en svo þróast stefið áfram í
kafla 11, 12, 16 og 17, og mætti kannske líta svo á að hann endi í
e.k. daufu bergmáli í kafla 22 og 23.
3) Þriðja stefið er loks breið lýsing á löndum á norðurslóðum.
Þetta stef tengist hinu fyrsta að því leyti, að þessi norðlægu lönd
einkennast m.a. af sérstökum sólargangi, og er útskýringin á
honum mikilvægur liður í útskýringunum á klukku náttúrunnar.
Svo tengist þetta stef einnig umræðunum um sannleiksgildi
frásagna af fjarlægum fyrirbærum, þar sem það eru jafnan fyrirbæri
á norðurslóðum sem eru annar liðurinn í öllum samanburði. Þessar
lýsingar hefjast með frásögninni af sólargangi í Hálogalandi og
teygja sig yfir landafræðikaflana. Má segja að endapunkturinn sé
lýsingin á loftslagsbeltunum fimm.