Skírnir - 01.09.1991, Page 39
SKÍRNIR
EFNISSKIPAN KONUNGSSKUGGSJÁR
301
Þótt hægt sé á þennan hátt að rekja í sundur samfléttun stefjanna
þriggja í megindráttum, virðast málin oft flóknari þegar rýnt er í
einstök atriði í þessari pólýfóníu: ýmsir kaflar tilheyra tveimur eða
þremur stefjum í senn og þau teygja sig víða. En frekari skil-
greining á þessum stefjum og samspili þeirra er fyrir utan ramma
þessarar rannsóknar og fellur heldur undir hugmyndasögu, og er
því rétt að hætta hér.
Eftir þessa greiningu á seinni hluta kaupmannabálksins er hins
vegar kominn tími til að líta á bálkinn í heild og svara þeirri spurn-
ingu hvort einhver formleg tengsl séu milli beggja hluta hans og
hvort hann hlýði einhverjum heildarreglum. Svarið ætti nú að liggja
í augum uppi: kaupmannabálkurinn í heild fær einingu sína af því
að hann er byggður upp utan um þrjú mismunandi löng tímabil í
lífi kaupmanns, einn dag, eitt ár og loks starfsferilinn í heild eins og
hann lítur út þegar dregur að lokum og ávöxturinn er að koma í
ljós. I fyrri hlutanum eru stysta og lengsta tímabilið tengd saman og
notuð í sameiningu sem rammi utan um efnið, einn dagur í lífi
kaupmannsins og lok ferilsins. I seinni hlutanum er það síðan árið
og árstíðirnar sem verða að sams konar ramma um margvíslegar
orðræður. Þannig er kjarni formgerðarinnar í kaupmannabálkinum
tíminn og eru þá augljós tengslin milli hennar og fræðanna um
klukku náttúrunnar, sem felld eru inn í árstíðarammann.
Það hefur þannig komið í ljós, að efnisskipan kaupmanna-
bálksins a.m.k. er ekki á nokkurn hátt „losaraleg“. Ef mönnum
finnst að svo sé, stafar það af því, að ýmsum umræðum, sem hver
um sig er byggð upp á fremur einfaldan og rökréttan hátt, er flétt-
að saman. A yfirborðinu er það einkum „sonur“ sem ræður þessari
samfléttun, ýmist með fáfræði sinni eða skyndilegum hugdettum og
upprifjunum á gömlum umræðuefnum, en í raun og veru byggist
hún á skýrum reglum sem eiga ekkert skylt við leitandi
þekkingarleysi spyrilsins. Þessar reglur eru ekki aðeins formlegar,
heldur hafa þær einnig innihald, - í þeim er sem sé ákveðin hugsun,
- og með því að skilgreina þær nálgumst við jafnframt hugsanaþráð
verksins og tengsl hinna ýmsu efnisatriða sem þar er fjallað um.
Það tel ég að sé fyrsta skrefið í áttina að því að rannsaka hugmynda-
heim Konungsskuggsjár.
(Fyrirlestur haldinn á vegum Félags íslenskra fræða í Viðey 5. maí 1990)