Skírnir - 01.09.1991, Page 47
SKÍRNIR
TIL VARNAR LÝÐRÆÐINU
309
frelsi manna eru þau að menn eru allir „handverk eins almáttugs og
óendanlega viturs skapara,“ og því ber mönnum að „lifa svo lengi
sem honum, ekki þeim, þykir henta“.8 Þetta ríki náttúrunnar og
náttúruréttarins er þannig um margt hið ágætasta ríki, enda
einkennir það „friður, velvilji, öryggi og gagnkvæm hjálpsemi“.9 Á
þessu ríki er eiginlega bara einn galli, en afdrifaríkur galli sem einn
og sér dugir til að útskýra hvers vegna menn eru tilbúnir að gefa
uppá bátinn náttúrlegan jöfnuð sinn og frelsi:
[Því] þótt [maðurinn] hafi þessi réttindi í ríki náttúrunnar er afar ótryggt
að hann fái notið þeirra, og sífelld hætta er á að á þeim verði troðið af
öðrum. Því sé hver maður konungur eins og hann, og allir jafn réttháir
honum en fjöldinn hneigður til ójafnaðar og ranglætis, þá er harla ótryggt
að hann fái notið eigna sinna. Vegna þessa er hann fús að segja skilið við
það frelsi sem enga stund fær veitt neitt öryggi. Það er því ekki að
ástæðulausu að menn eru fúsir að ganga í samfélag með öðrum sem þeir
hafa sameinast, eða hyggjast gera það, til að varðveita líf sitt, frelsi og fé,
eða það sem ég nefni einu nafni eignir.10
Kjarni málsins er því sá að menn afsala sér náttúrlegu „fram-
kvæmdavaldi“ til að tryggja að þeir fái notið þeirra náttúrlegu rétt-
inda sem náttúrurétturinn kveður á um; líf, frelsi og fé. Upprunalegt
hlutverk stjórnvalda er því, að mati Lockes, að framfylgja náttúru-
réttinum með því að vernda þegnana hvern gegn öðrum. Það virðist
því við hæfi að kalla þessi rök verndarrökin. En hér er ekki öll sagan
sögð; þessi röksemd ein og sér dugir til að réttlæta stjórnvöld sem
slík, en ekki til að færa rök fyrir lýðræði. Það má best sjá af því að
þetta eru nokkurn veginn sömu rök og Thomas Hobbes (1588-
1679) notaði til að styðja algert einræði. Hér er því viðbótar þörf.
Munurinn á kenningu Hobbes og Lockes er í senn einfaldur og
afdrifaríkur. Hobbes hélt því fram að menn yrðu alfarið að afsala sér
ákvörðunarvaldi sínu, ef einhver von ætti að vera um öryggi. Þessu
mótmælir Locke á þeirri einföldu forsendu að menn geti hreint ekki
verið öruggir um líf sitt og limi, frelsi og fé, ef valdi sé alfarið afsalað
í hendur einráðs konungs. Oðru nær, öryggisleysið hljóti að aukast
8 Sama.
9 Sjá sama rit, grein 19, s. 59.
10 Sama rit, grein 123, s. 154.