Skírnir - 01.09.1991, Page 49
SKÍRNIR
TIL VARNAR LÝÐRÆÐINU
311
Jean-Jacques Rousseau (1712-1778)
Stjórnspeki svissneska útlagans og heimspekingsins Jean-Jacques
Rousseaus hefur hlotið nokkuð sérkennileg örlög. Annars vegar er
óhætt að fullyrða að kenningar hans hafi haft talsverð áhrif sökum
þess að fólk af ólíku sauðahúsi hefur sótt til þeirra hvatningu og
innblástur. Hins vegar má segja að varla hafi nokkur tekið undir
þær stjórnskipulagshugmyndir sem Rousseau setur fram í höfuðriti
sínu, Samfélagssáttmálanum, sem fyrst kom út árið 1762.13 Á
þessu eru meðal annars þær skýringar að í öðrum ritum sínum
dregur Rousseau nokkuð úr þeirri afdráttarlausu sjálfræðiskröfu
sem hann setur fram í Samfélagssáttmálanum.u Ur mikilvægasta
atriðinu er þó hvergi dregið, en það er sú höfuðáhersla sem
Rousseau leggur á að fullt tillit sé tekið til þroskaskilyrða manna
þegar hugað er að kostum og göllum mismunandi stjórnarhátta.
Tvö atriði varða hér mestu um málsvörn Rousseaus fyrir lýð-
ræði. I fyrsta lagi er það sá greinarmunur sem hann gerir á lög-
gjafarvaldi og framkvæmdavaldi og hvílir á aðgreiningu vilja og
máttar. I öðru lagi er það sú hugmynd Rousseaus að bein þátttaka í
sameiginlegum ákvörðunum stuðli að auknum þroska fólks.
Ef við lítum fyrst á aðgreiningu valdsins, þá gerir Rousseau
skýran greinarmun á æðsta valdi eða fullveldi ríkis annars vegar og
hins vegar því hvernig framkvæmdavaldi er háttað. Rousseau
13 Du Contract Social. Hér er stuðst við útg. Constant Bourquin með formála
Bertrand de Jouvenel: „Essay sur la politique de Rousseau" (Les Éditions du
Cheval Alié, Genéve 1947). Enskar þýðingar eru nokkrar til og er þýðing
Maurice Cranston The Social Contract (Penguin Books, Harmondsworth 1968)
sennilega útbreiddust.
I samræmi við aðrar þýðingar í þessari grein finnst mér rétt að þýða Du
Contract Social sem Samfélagssáttmálinn fremur en sem „Þjóðfélagssamn-
ingurinn“ eins og Símon Jóh. Ágústsson gerir í grein sinni um Rousseau (And-
vari 88. ár, 1. hefti 1963, s. 3 - 25). Mér virðist ekki rétt að setja samasem merki
milli „samfélags" og „þjóðfélags", meðal annars vegna þess að innan vébanda
flestra þjóðfélaga eða þjóðríkja eru fleiri en eitt samfélag.
14 Sjá til dæmis tillögur hans um stjórnskipan Korsíku og hugleiðingar um pólsk
stjórnvöld: Project de Constitution pour la Corse og Considérations sur le
gouvernement de Pologne. Enskar þýðingar á þessum ritgerðum er að finna í
Rousseau, Political Writings undir ritstjórn C.E. Vaughan (2 bindi, Edinburgh
1953).