Skírnir - 01.09.1991, Page 51
SKÍRNIR
TIL VARNAR LÝÐRÆÐINU
313
undir almenningi, á að vera tryggt að hann stjórni með almannahag
í huga fremur en einkahagsmuni. Kosningarnar eru þá einskonar
trygging fyrir því að „aðallinn" misnoti ekki þau völd sem hann
hefur. Hér er því um að ræða sömu hugsun og hjá Locke, það er að
tryggja öryggi þegnanna gagnvart stjórnvöldum. Munurinn er sá
að ólíkt Locke telur Rousseau að hið æðsta vald, löggjafarvaldið,
verði ekki framselt.
Eins og Locke trúði Rousseau því að fulltrúalýðræði gæti veitt
vörn gegn misnotkun framkvæmdavaldsins og að það verndaði
hagsmuni einstaklinga. En gagnstætt Locke trúði hann því að engin
trygging væri til gegn misnotkun löggjafarvaldsins. Þannig segir
hann um Englendinga að þeir líti á sig sem frjálsa menn, en að það
sé hinn mesti misskilningur hjá þeim. Þeir séu einungis frjálsir
þegar þeir kjósa þingmenn sína en þess á milli séu þeir undirokaðir
og einskis megnugir.16 Frelsi er þannig annað lykilhugtakið í
lýðræðisvörn Rousseaus, enda er frelsið kjarni mannlegs eðlis að
hans mati:
Þegar ég afsala mér frelsi mínu afsala ég mér mennsku minni í leiðinni;
réttindum mínum sem manns og þá um leið skyldum mínum. Það kemur
ekkert í staðinn, afsali maður sér öllu. Slíkt afsal gengur í raun þvert á
mannlegt eðli;[...]17
Hér er ekki einungis um formlegt frelsi að ræða, eða „náttúrlegt“ í
sama skilningi og hjá Locke, heldur eiginlegt frelsi mannsins innan
raunverulegs samfélags. Þessi greinarmunur á formlegu og
eiginlegu frelsi er mikilvægur og endurspeglar mismunandi skoð-
anir sem Locke og Rousseau höfðu á markmiði og hlutverki sam-
félagsins ásamt öllum stofnunum þess.
Locke hélt því fram að hlutverk ríkisins sem yfirvalds í sam-
félaginu væri að vernda einstaklinga hvern fyrir öðrum og þá um
leið gegn stjórnvöldum. Til þess væri takmarkað fulltrúalýðræði
16 Sjá Samfélagssáttmálann, þrlðju bók, kafla 3.
17 Sama rit, fyrsta bók, kafli 4. Hér er lauslega snarað, en á frummálinu hljóðar
textinn svo: „Renoncer á sa liberté c’est renoncer á sa qualité d’homme, aux
droits de l’humanité, méme á ses devoirs. II n’y a nul dédommagement possible
pour quconque renonce á tout. Une telle renonciation est incompatible avec la
nature de l’homme;[...]“ (s. 183).