Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 53
SKÍRNIR
TIL VARNAR LÝÐRÆÐINU
315
nafngiftin á röksemdum Rousseaus fyrir lýðræðinu einfaldlega
þroskarökin.18
Joseph Schumpeter (1883-1950)
Þroskarök Rousseaus og krafa hans um almenna þátttöku hafa
verið gagnrýnd harðlega af mörgum, en sérstaklega af fylgis-
mönnum frjálshyggju. Meðal þessara gagnrýnenda má telja Joseph
Schumpeter, sem í höfuðriti sínu, Auðvaldshyggja, jafnaðarstefna
og lýðræði,19 beinir spjótunum að því sem hann kallar „klassísku
lýðræðiskenninguna". Þótt þessi nafngift hans sé umdeild má
auðveldlega sjá hvert skotmarkið er. Schumpeter finnur „klassísku
kenningunni“ helst tvennt til foráttu:
I fyrsta lagi er ekki til óræk og afmörkuð skilgreining á almannaheill sem
allir myndu fallast á eða fá mætti fólk til að fallast á með skynsamlegum
rökum. [I öðru lagi] fellur hugmyndin um vilja fólksins eða volonté
générale um sjálfa sig [vegna þess að] hún gerir fyrirfram ráð fyrir því að
til sé óræk og afmörkuð skilgreining á almannaheill sem öllum sé ljós.20
Hér er augljóslega vegið að hugmynd Rousseaus um almennan
eða sameiginlegan vilja fólksins. Að mati Schumpeters er vandinn
við þennan sameiginlega vilja sá að ekki er með nokkru móti unnt
að skilgreina almannaheill. En hér þarf að hyggja vel að orðalagi.
Schumpeter heldur því fram að ekki sé til óræk skilgreining á
almannaheill, en með því virðist hann eiga við að ekki sé til neinn
18 Varðandi þessa túlkun á mikilvægi þroskans í kenningu Rousseaus sjá Robert
Derathé, Jean-Jacques Rousseau et la science politique de son temps, (Presses
Universitaires de France, Paris 1950). Sjá einnig James Miller, Rousseau. Dreamer
of Democracy (Yale University Press, New Haven 1984) og David Held, Models
of Democracy (Stanford University Press, Stanford 1987), 3. kafla.
19 Capitalism, Socialism and Democracy. Hér er stuðst við þriðju útgáfu (Harper &
Brothers, New York 1950).
20 Sama rit, kafli XXI, s. 251-52. Þess er rétt að geta að Schumpeter var ekki fyrstur
til að setja fram gagnrýni af þessu tagi eða skilgreiningu á lýðræði, sem í félags-
vísindum er kennd við kjarnræðisskólann. í þessu efni sækir hann margt til
læriföður síns, Max Webers, og ítölsku félagsfræðinganna Gaetano Mosca og
Vilfredo Pareto. Orðið kjarnræðiskenning (sem þýðing á elitism) er fengið úr
litlu kveri eftir Þorstein Magnússon (Lýðraði og vald, Félagsvísindadeild
Háskóla íslands og Örn & Örlygur, Reykjavík 1979).