Skírnir - 01.09.1991, Page 64
326
ÁGÚST HJÖRTURINGÞÓRSSON
SKÍRNIR
formura, yrði niðurstaðan líklega sú að lýðræði sé það stjórnarform
sem best verndar menn hvern gegn öðrum og jafnframt gegn
yfirvöldum. En jafnvel þótt fallist sé á slíka niðurstöðu, er þá
endilega víst að lýðræði sé hið besta stjórnarform sem kostur er á?
Hugsanlegir valkostir í þessu tilliti eru nokkrir. Til dæmis stétta-
samfélag líkt og tíðkast meðal Indverja, eða „vísindaleg" samfélög
af platónskri eða marxískri fyrirmynd, eða fullkomlega skipulagt
samfélag eins og það sem Aldous Huxley lýsir í Fagra nýja veröld.
Oll þessi samfélög veita þegnum sínum vernd sem fylgismenn
þeirra telja næga. Fylgismenn bæði frjálshyggju og félagshyggju
finna slíkum samfélagsgerðum það helst til foráttu að þau takmarki
frelsi manna og byggi á ójöfnuði, en ekki að þar skorti vernd á lífi
og limum. Það virðist því ekki vera verndin ein og sér sem gerir
lýðræði að góðum kosti, raunar besta kostinum að mínu mati,
heldur þau gildi sem lýðræðislegt samfélag byggir á. Af þessu leiðir
að réttlæting á lýðræði hlýtur að byggja á réttlætingu á þeim
gildum og verðmætum sem lýðræði fóstrar, en þau eru meðal
annarra frelsi og ábyrgð, jöfnuður og þroskamöguleikar.
Fyrsta gagnrýnin sem vert er að reifa varðar þessi gildi og er á þá
lund að frjálslyndir lýðræðissinnar hafi gefið þeim of lítinn gaum.
Kannski er skýringin sú að síðan á dögum bandarísku stjórnar-
skrárinnar hafa formlegt frelsi og jöfnuður manna verið tekin sem
augljós sannindi og helgur réttur hvers manns.32 En frelsi og jöfn-
uður eru ekki augljós; frelsi fylgir ábyrgð og eiginlegur jöfnuður
felur í sér að raunveruleg tækifæri manna eru jöfn, en ekki að þeir
séu aðeins jafnir í orði kveðnu.
Sá greinarmunur sem hér hefur verið gerður á „formlegu“ og
„eiginlegu" frelsi og jöfnuði á rætur sínar að rekja til mismunandi
hugmynda sem frjálshyggju- og félagshyggjufólk gerir sér um
32 Eins og Atli Harðarson bendir réttilega á í inngangi sínum að síðari ritgerð
Lockes um ríkisvaldið, þá eru upphafsorð bandarísku stjórnarskrárinnar nánast
eins og endursögn á ritgerð Lockes, en þau eru svofelld í þýðingu Atla:
„Eftirtalin sannindi teljum vér augljós: að allir menn eru skapaðir jafnir; að
skapari þeirra hefur veitt þeim viss réttindi sem ekki verða frá þeim tekin; að
meðal þessara réttinda eru réttur til lífs, frelsis og þess að leita hamingjunnar; að
stjórnvöld eru sett til að tryggja þessi réttindi og að réttmxt völd þeirra eru sótt
í samþykki þeirra sem undir þau eru settir; að hvenær sem stjórnvöld af
einhverju tagi vinna gegn þessum tilgangi þá hefur fólkið rétt til að breyta þeim
eða setja þau af ..." (Ritgeró um ríkisvald, s. 32).