Skírnir - 01.09.1991, Page 70
332
ÁGÚST HJÖRTURINGÞÓRSSON
SKÍRNIR
byggir á því að stjórnmál, líkt og aðrir þættir samfélagsins, séu
vettvangur bæði samvinnu og baráttu. Þátttaka í þessari samvinnu
og baráttu er þroskandi fyrir sérhvern einstakling og um leið
mikilvægur þáttur í því að vera frjáls og sjálfstæður. Þeir sem eru
fylgjandi beinni þátttöku fólks á sem flestum sviðum neita því ekki
að fulltrúakerfið sé að einhverju leyti nauðsynlegt; að kjósa aðra til
að taka ákvarðanir og sjá til þess að þeim sé framfylgt hlýtur oft að
vera skynsamlegt. En með því að kjósa aðra til að sinna öllum
sameiginlegum ákvörðunum og framkvæmd þeirra leysa menn sig
frá allri ábyrgð á því samfélagi sem þeir búa í.
Slíkt ábyrgðarleysi er mjög áberandi einkenni á stjórnmálum nú
á tímum. Þingmennirnir, fulltrúar fólksins, þurfa ekki að standa
skil á gerðum sínum gagnvart kjósendum nema að takmörkuðu
leyti, enda kosnir til að framfylgja eigin sannfæringu og búa við
þann kost að þurfa að sæta sífelldum hrossakaupum á hinum
pólitíska markaði. Og almenningur sem kýs þessa fulltrúa, í svip-
uðum hlutföllum milli flokka, kosningu eftir kosningu, og sömu
mennina áratugum saman, telur sig enga ábyrgð bera á fulltrúum
sínum. Alþingismenn, ríkisstjórn og opinberir starfsmenn eru
„þeir“, einhverjir allt aðrir en „við“, almenningur í landinu. Við
slíkar aðstæður líta menn ekki á sig sem fyllilega sjálfráða einstak-
linga, miklu fremur að mönnum finnist þeir ofurseldir framandi
aðstæðum sem þeir sjálfir hafa engan þátt tekið í að móta og beri
þar af leiðandi enga ábyrgð á.
Það er barátta við þessa firringu, framandleika og ábyrgðarleysi,
sem knýr þá hugsun að aukin þátttaka almennings sé nauðsynleg
við þær aðstæður sem nú ríkja í vestrænum lýðræðisríkjum. Því til
viðbótar eru ýmis vandamál sem við blasa, sem fulltrúalýðræðið
virðist ekki ráða við að leysa vegna þess að það byggir á hagsmuna-
baráttu fremur en viðleitni til sameiginlegrar ákvarðanatöku þar
sem tekið er tillit til langtímasjónarmiða og almannaheillar. Til að
skýra þetta má vitna í skýrslu sem unnin var á vegum Sameinuðu
þjóðanna og birt árið 1987. Þar er fjallað um umhverfismál á mjög
breiðum grundvelli og reynt að benda á leiðir til að snúa mannlífi á
jörðinni inn á heillavænlegri brautir. I niðurstöðum skýrslunnar
segir meðal annars: