Skírnir - 01.09.1991, Page 75
SVEINBJORN RAFNSSON
Af fiskrykni og hvalbera
Ormur Snorrason á Skarði á Skarðsströnd, um 1320 - um 1402, var
einn voldugasti höfðingi á íslandi á 14. öld. Hann var sonur Snorra
Narfasonar, um 1260-1332, lögmanns á Skarði. Ormur var
lögmaður a.m.k. árin 1363 og 1374-75, og hann fór með hirð-
stjóravald árið 1364.1 Ormur var í Grundarbardaga árið 1361 og
hefur þá verið hætt kominn ef marka má Flateyjarannál. Þar er
tilfærð vísa um Orm í bardaganum:
Frá ég stála storm
mjög sturla Orm,
þar er kyssti kyr
kirkjunnar dyr.
Kvað hann þurfa þess,
að þylja vers,
þó er bænin best
honum byrgi mest.
Af bardaganum segir ennfremur: „Var þar grið gefin Ormi Snorra-
syni, Þorgeiri Egilssyni og öllum öðrum þeirra kumpánum. Hafði
Ormur með sér flest öll tygi þau er þeir höfðu átt. Margir menn
fengu þar lemstur og limalát."2
í Flateyjarannál andar raunar heldur köldu í garð Skarðverja á
14. öld, en annállinn mun láta í ljós húnvetnsk sjónarmið. Gott-
skálksannáll er hins vegar á bandi Skarðverja og lætur í ljós vest-
lensk sjónarmið á 14. öld. I Gottskálksannál er t.d. vandlega þagað
yfir hlut Orms Snorrasonar í Grundarbardaga, en þar eru ýmsar
upplýsingar af öðru tagi um Skarðverja og Helgafellsklaustur.
1 Einar Bjarnason hefur fjallað um ættir Orms, íslenzkir œttstuðlar I. Reykjavík
1969, einkum bls. 185-191, sjá einnig Páll Eggert Ólason, íslenzkar œviskrár
IV. Reykjavík 1951, bls. 100.
2 Islandske annaler indtil 1578. Udg. ved G. Storm. Christiania 1888, bls. 408-409.
Skímir, 165. ár (haust 1991)