Skírnir - 01.09.1991, Qupperneq 86
348
RORY McTURK
SKÍRNIR
þá verið nokkurs konar meðhjálparar hennar við dýrkun gyðjunnar.
Axel Olrik hefur í öðru sambandi bent á að hjá Löppum voru
karlmenn oftast með kvenhatta á höfði sér þegar þeir voru að blóta
eða dýrka heiðnar gyðjur, og að sá siður eigi rætur sínar að rekja til
fornnorrænna trúarbragða.16 Þetta útskýrir að mínum dómi orðið
svarðmerðlingar. Þau höfuðföt, sem synir Loðbróku voru með, voru
kvenhattar eða kvenhúfur, sem þeir notuðu þegar þeir voru að hjálpa
móður sinni, hofgyðjunni Loðbróku, að dýrka nöfnu hennar,
gyðjuna Loðbróku eða Loþkonu.
Að áliti Sahlgrens var Loþkona upphaflega sama gyðjan og
Nerthus, gyðja forngermana sem rómverski sögumaðurinn Tacitus
fjallar um í bók sinni Germania, frá því um árið eitt hundrað eftir
Krist. Lýsing Tacitusar hljóðar svo, í þýðingu Páls Sveinssonar:
I eyju nokkurri á hafi úti er helgur lundur, en í honum er vagn, helgaður
gyðjunni og hulin klæði; er hofgoða einum leyft að snerta hann. Verður
hann þess áskynja, er gyðjan er komin í helgidóminn; og er hún fer aftur á
burt í vagninum, sem dreginn er af kvígum, fylgir klerkur henni á leið með
langri og auðmjúkri bæn. Eru þá gleðidagar og hátíðablær hvarvetna, er
gyðjunni þóknast að koma og dveljast. Þá skal ekki víg vekja, og enginn má
snerta vopn; þá fyrst þekkja menn og kunna að meta friðinn, en eigi helzt
það lengur en þangað til hofgoði hefir aftur fylgt gyðjunni inn á hinn helga
stað, er hún er södd orðin af samvistum við mennina. Bráðlega eftir þetta
laugast vagninn og klæðið og gyðjan sjálf, þótt ótrúlegt megi virðast, í
stöðuvatni einu á afviknum stað. Er sá starfi ætlaður þrælum, en jafnskjótt
og honum er lokið, hverfa þrælarnir ofan í vatnið. Af því stafar hin
dularfulla skelfing og hinn ginnhelgi huliðshjúpur, er hvílir yfir þessari
veru, er þeir einir fá séð, sem ofurseldir eru dauðanum.17
Þessi lýsing á a.m.k. þrennt sameiginlegt með erindum trémannsins
í Ragnars sögu. I fyrsta lagi er minnst á eyju í sambandi við blót
eða dýrkun; í öðru lagi er talað um klæði í þessu sambandi; og í
þriðja lagi er vísað til mannablóta. Jónas Kristjánsson og aðrir
fræðimenn hafa borið þessa lýsingu Tacitusar saman við söguna
um Gunnar helming í Ögmundar þœtti dytts, sem Jónas hefur gefið
16 Axel Olrik, „Nordisk og lappisk gudsdyrkelse. Bemærkninger i anledning af
solvognen fra Trundholm,“ Danske studier, 1905, bls. 39-57, sjá bls. 53.
17 Sjá Eyfirðinga sögur [...], Jónas Kristjánsson gaf út, íslenzk fornrit, IX. bindi,
Reykjavík 1956, bls. lviii, þar sem Jónas vitnar í þýðingu Páls Sveinssonar á
Germaníu Tacitusar.