Skírnir - 01.09.1991, Síða 103
SKÍRNIR
SKARLATSBÚINN VÆRINGI
365
lausar voru sendar fyrirspurnir til Kaupmannahafnar um „ungan
Islending menntaðan í Kaupmannahöfn [...], vel skólaðan ís-
lenskumann".20 Það að fyrst skyldu bornar víurnar í fremsta mál-
vísindamann Evrópu og síðan, þegar það bar ekki árangur, lögð
áhersla á að finna hæfan íslending verður best skýrt í ljósi þeirra
merku rita sem safninu höfðu þá nýverið áskotnast. Frá 1812 hafði
safnið keypt einstök íslensk handrit af Grími Thorkelín og Finni
Magnússyni, en árið 1819 eignaðist það heildarsafn Thorkelíns,
alls um 1500 rit hvaðanæva að.21 Það sýnir hve merkileg þessi nýju
rit þóttu að leitað skyldi eftir þjónustu Rasks og síðar hæfs
Islendings. Peter Muller biskup og síðar Rask liðsinntu með því að
mæla með Þorleifi Repp; hann væri Englandsvinur, snjall
málvísindamaður og áhugi hans á enskum bókmenntum þráhyggju
líkastur.22 Arið 1826, eftir nokkrar tafir í Kaupmannahöfn og
tvístig í Edinborg, var Þorleifur ráðinn og gegndi hann starfinu í
nærfellt tíu ár. Ekki leið á löngu þar til hann gat sér orð sem einn
frjóasti og frumlegasti málvísindamaðurinn í höfuðstað Skotlands.
Hann var stöðugt að gefa út: bækur, bæklinga, ritgerðir fyrir
lærdómsfélög, ritdóma, bréf til dagblaða og greinar í alfræðibækur.
Þekking hans á hálfri annarri tylft tungumála gerði hann að mjög
eftirsóttum þýðanda og kennara og gat hið síðarnefnda af sér
trygga og þakkláta fylgisveina úr hópi nemenda.
Þessi miklu afköst voru samt aðeins yfirborð ísjakans. Að baki
hverri útgefinni ritsmíð, hverri kennslustund, lá fjöldinn allur af
óbirtum handritum, svo ljóst er að Þorleifur lagði ósjaldan upp
laupana í miðju kafi. A meðal varðveittra handrita eru fjölmargar
hálfkaraðar ritgerðir og óútfærðar hugmyndir: saga norrænnar
goðafræði; áætlun um útgáfu Heimskringlu á íslensku samsíða
enskri þýðingu löngu áður en Samuel Laing reið á vaðið með slíkar
tilraunir árið 1844; hugmyndir um endurskipulagningu skoskra
háskóla; áætlanir um ný tímarit og dagblöð og um nýja bókmennta-
stofnun og bókasafn í Edinborg; umsókn um konunglegan styrk til
20 Report of the Committee appointed by the Faculty [...] to enquire into matters
stated in Mr Repp ’s Memorial, (Edinborg 1829), bls. 6-7, vitnað er í bréf dagsett
14. mars 1825 frá David Irving til Peters Miiller biskups.
21 Patrick Cadell, Ann Matheson (ritstj.), For the encouragement of learning:
Scotland’s National Library 1689-1989. (Edinborg 1989), bls. 68.
22 Lbs MS ÍB 89b fol. minnisbók, sbr. neðanmálsgrein 17.