Skírnir - 01.09.1991, Side 122
384
ANDREW WAWN
SKÍRNIR
Miklagarði, var andlegur auður hans langtum meiri en annarra viðstaddra.
Hann var vissulega kristinn maður, en ekki af hinni hefðbundnu grísku
kirkju - þetta fór ekki milli mála [...] vegna nýstárlegs djásns, fuglshöfuðs
úr hömruðu gulli, sem hékk í festi úr sama málmi um háls hans; þetta djásn
[...] benti ótvírætt til dulspeki. Skáldið norræna hafði meiri velþóknun á
dulrænum kennisetningum þessa sértrúarflokks en hreinræktuðum
kristindómi, sökum þess hve hugarflugið skipaði þar háan sess. Ekki þurfti
að úthýsa Þór og Óðni sem seiddu unggæðingslegan huga með frækilegum
dáðum og dyggðum. Þar skipuðu Seifur, Hermes, Ares og Afródíta einnig
rúm, en þeim hafði hann kynnst gegnum Hómer og Æskílos. Yfirboðari
hans í Miklagarði fylgdi einnig þessum trúflokki; sérdeilis tillátssamur
flokkur sem jók siðferðislegt og trúarlegt þrek meðlimanna án þess að
uppræta eða víkja til hliðar öðrum hjartfólgnum hindurvitnum eða
goðsögum. Þessi maður var nú beðinn að útskýra fornar myndir og
áletranir á gullhorni Brestis.
Þetta er eftirtektarverðasta viðbót Repps við Færeyinga sögu vegna
þess að hún virðist vera nákomnust honum sjálfum. Víst er að sé
þetta lýsing á íslensku skáldi að nafni Þorleifur jarlaskáld (eða
jarlsskáld) þá er þetta ekki lýsing á íslenska skáldfw« Þorleifi
jarlaskáldi; væringi Repps dregur ekki dám af hinum kæna en
litlausa Þorleifi í þættinum í Flateyjarbók sem ber nafn hans.63
Skáld Repps dregur hins vegar í nokkrum lykilatriðum dám af
Repp sjálfum. Jafnvel þótt ekki hefði þegar verið látið að því liggja
í þessari ritgerð að Repp sýni stundum tilhneigingu til að skáskjóta
sér inn í persónur sem hann er að fjalla um, er hægt að leiða að því
gild rök að í mynd sinni af væringjanum gestkomandi hafi Repp
dregið upp býsna áleitna sjálfsmynd.
Ihugum sönnunargögnin: skáldið ber sama fornafn og Repp
(skemmtileg tilviljun svo ekki sé meira sagt); skáldið er vel lesið í
grískum bókmenntum (eitt af elstu óloknu verkefnum Repps var
að búa leikrit Aristófanesar til prentunar, hann birti einnig ritgerðir
um Pindar og Kallimakkos, snaraði Menander á ensku og
íslenskaði grísk spakmæli);64 skáldið yrkir ljóð á grísku og dönsku
63 Þorleifs þáttr jarlsskdlds, ritstj. Jónas Kristjánsson, Eyfirðinga sögur, íslenzk
fornrit 9 (Reykjavík 1956), bls. 215-29.
64 Sjá bréf Þorleifs frá London til Birgis Thorlaciusar, dagsett 8. ágúst 1821, um
Aristófanes-verkefnið (Lbs MS JS 96 fol.) ; um Menander-þýðinguna sjá Lbs
MS IB 90c fol.; um Kallimakkos sjá Blackwood’s Magazine, september 1833,
395-8; uppkast Repps að gagnrýni á útgáfu Alexanders Negris á Pindar 1835 er í
Lbs MS IB 89c fol.; sjá einnig Repp, Epigrömm ( Kaupmannahöfn 1864).