Skírnir - 01.09.1991, Page 128
390
SVEINN EINARSSON
SKÍRNIR
Kammerráðinu er ekki um þessar árásir kríunnar, enda útbía þær
hann allan. Hann kallar því á andskotann sér til fulltingis. Það er
eins og við manninn mælt, andskotinn stígur að bragði upp úr jörðu
og er í dönsku úníformi. Djöfsi gefur Magnússen það ráð að ganga
stilltur og prúður niður að strönd og stíga um borð á sexæringi.
Þannig lýkur fyrsta þætti og annar þáttur hefst. Þá ber að
sverðfisk, sem veitist að kammerráðinu í bátnum. Magnússen
minnir enn á vald sitt og segir við sverðfiskinn:
Akta þitt yfirvald,
eg heiti Magnússen.
Og enn er ný persóna kölluð til sögu og er það beinhákarl. Við-
skipti þeirra verða á þá leið, að Magnússen fellur útbyrðis. Selur
bjargar honum frá drukknun, en vill fá úníformið í bjarglaun.
Þessu lyktar á það leið, að selur hefur sitt fram, og kammerráðið
neyðist til að klæða selinn í einkennisbúning sinn, en stendur fá-
klætt eftir. Kór fugla lætur síðan ljós sitt skína út af þessum
dramatísku atburðum, en hetjan staulast í land með svofelldum
lokaorðum leiksins:
Ó hvílík sjón og sæmdar grand
svona útleikinn að koma á land.
Hannes segir þennan leik ortan á skólaárunum, enda ber hann
öll slík merki. Hann er ekki til í eiginhandarriti Steingríms en hins-
vegar í nokkrum uppskriftum í Landsbókasafni (t.d. Lbs. 315 4to).
Hann hefur aldrei komist á prent og óvíst, hvort hann hefur verið
lesinn hátt eða fluttur í skólanum, þó að það verði reyndar að
teljast mjög sennilegt. I kjölfar þess, að skólapiltar hófu aftur leik-
sýningar í skólanum árið 1846, eftir að flutt var af Bessastöðum í
hið veglega nýja hús við Lækjargötu, fóru menn að setja saman
skólagleðir sjálfir. I viðbót við leiki Holbergs voru á þessu árum
undir miðbik aldarinnar flutt heimatilbúin leiksmælki, og var
Magnús Grímsson einna duglegastur við þá samningu. Það for-
dæmi gefur frekar undir fótinn, að Uniformsmissirinn hafi verið
fluttur með einhverjum hætti um líkt leyti.