Skírnir - 01.09.1991, Side 134
GÍSLIJÓNSSON
Nöfn Dalamanna 1703-1845
og að nokkru til okkar daga
I
Dalamenn voru vel á 20. hundrað árið 1703.1 Konur voru nokkru
fleiri en karlar. Mér telst svo til, að þær hafi verið 1073, en þeir 869.
Allir hétu einu nafni og voru son og dóttir eftir réttu eðli og lögum
tungunnar. Ættarnöfn tíðkuðust með öðrum orðum ekki. Einum
lausamanni þrítugum þótti þó við hæfi að skreyta sig með
auknefninu West. Það var Jón Guðmundsson á Fellsenda í Mið-
dalahreppi. Svipað má sjá í Árnessýslu á sama tíma.
Dalamenn báru 239 nöfn árið 1703, karlar 127 og konur 112. Á
öllu landinu var þetta svo, að karlar hétu 387 nöfnum, en konur
338.2
Mikill meiri hluti nafna í Dölum var af germönskum uppruna
og flest þeirra norræn og höfðu að miklum hluta fylgt þjóðinni
frá öndverðu. Nákvæm flokkun mannanafna eftir uppruna er
nokkrum annmörkum háð. Margt er vafasamt í þessum fræðum,
1 Mannfjöldatölum í opinberum heimildum ber ekki alltaf nákvæmlega saman.
Koma þar bæði til talningarfrávik og prentvillur. Höfuðheimildir mínar eru
prestsþjónustubækur og manntöl á filmum, svo og prentuð manntöl, sbr.
heimildaskrá.
2 Ólafur Lárusson: Nöfn íslendinga árid 1703, bls. 3. Mikill vandi er að ákvarða
nafnafjölda nákvæmlega. Kemur það til af því, að stundum er erfitt að greina
hvað skuli fleiri en ein gerð sama nafns eða hvað fleiri nöfn en eitt. Mér er tamt
að telja Bœring og Bœringur sama nafnið í gömlum manntölum, enda afar erfitt
að skilja þetta tvennt að. Sama er að segja um tvenndir eins og Þorlaug-Þórlaug,
Ormarr-Ormar, Maren-Marín. Ég tel þetta eitt nafn hverju sinni. Aftur á móti
tel ég tvö nöfn: Kár og Kári, Rós og Rósa, DiSrik og ÞiSrik. Próf. Ólafur
Lárusson og próf. Björn Magnússon greina ekki alltaf á sama veg og ég, einkum
er Birni tamara að sundurgreina það sem ég tel eitt.
Þegar gefinn er upp fjöldi nafna, verður hann því ætíð háður mati teljarans á
því hvað sé eitt nafn og hvað fleiri. En álitamálin í þessu efni eru ekki mjög
mörg, svo að þetta kemur ekki að mikilli sök.
Skírnir, 165. ár (haust 1991)