Skírnir - 01.09.1991, Síða 146
408
GÍSLIJÓNSSON
SKÍRNIR
son, bóndi á Mjóabóli í Vatnshornssókn í Dölum, fór öðruvísi að
og skírði son sinn Harbó (Harboe). Harbó Gíslason fæddist
aldamótaárið 1800. Hann mun hafa orðið skammlífur, og ekki
virðist hann hafa átt nafna hérlendis.14
Fleiri gátu skírt sjaldgæfum nöfnum en Gísli á Mjóabóli. Er nú
frá því að segja, að á 19. öld færðust hér gríðarlega í aukana ýmis
hebresk nöfn: Jóhann, Jóhannes, Jónas, Jónatan, Jósef, og oft
leituðu menn Jó-nafna í Biblíunni sem þar koma lítið við sögu. Ég
bið menn líta á lokaskrána í þessari ritgerð og sjá hvernig þetta var
í Dalasýslu. Hún var engin undantekning í þessu efni.
Hvergi nema í Dölum hef ég fundið dæmi um nafnið Jójada, en
í Vogi á Fellsströnd bjuggu árið 1801 hjónin Kristín Ólafsdóttir og
Jón Sigurðsson. Þau áttu soninn Jójada sem þá var 23 ára, ógiftur í
föðurhúsum. Ekki finn ég hann í næstu aðalmanntölum, né heldur
nokkra nafna hans hérlendis nokkru sinni. Nafnið er úr hebresku
Joiada, stytt úr Jehoiada = „megi guð vita“.
Og enn fleiri Dalamenn völdu börnum sínum sjaldgæf nöfn á
18. og 19. öld. Á Fellsenda í Sauðafellssókn var 1801 Lazaríana
Guðmundsdóttir 15 ára. Hún varð ekki langlíf og mun hin eina
með þessu nafni á landi hér. En bregðum okkur aðeins suður í
Borgarfjörð. Þar var 1801 28 ára Lazarus Isleifsson á Ytra-Hólmi.
Hann virðist ekki heldur hafa átt sér nafna á Islandi, hvorki fyrr né
síðar. Lazarus er alkunnugt nafn úr Biblíunni, komið í gegnum
grísku úr hebresku Eleazar = „guð hjálpar“, „hjálp guðs“. Vegna
bágborinnar heilsu Lazarusar, bróður Mörtu og Maríu, varð nafn
þetta hins vegar að samnafni í íslensku, og nú er sagt um kvelli-
sjúkan mann eða heilsutæpan, að hann sé óttalegur lasarus.
Lydía var fátítt nafn hérlendis á 19. öld, en hafði borist hingað
einhvern tímann á hinni 18. Lydia er landsheiti í Vestur-Asíu, og
kvenmannsnafnið mun eiga að merkja lydísk kona. I fornum
fræðum helgum er nefnd Lydía sem talin var dóttir Jósefs trésmiðs
í Nazareth, föður Jesú. Messudagur hennar er 3. ágúst. Hún er
einhvers staðar talin fyrsta kristna konan í Evrópu og var þá komin
14 Georg Sondergaard segir frá því í bók sinni Danske Efternavne (Kaupmanna-
höfn, Forlaget Danmark án ártals) að Harbo hafi verið algengt alþýðlegt
ættarnafn í Danmörku síðan á miðöldum. Sondergaard telur nafnið merkja
manneskju frá Hardsyssel. Höfundur þakkar Svavari Sigmundssyni fyrir þessa
ábendingu.