Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Page 58
Kristín Loftsdóttir
WoDaaBe benda einnig á að hreyfanleiki gerir þeim ekki eingöngu kleift að
nýta betur strjálar auðlindir svæðisins heldur felur tíður flutningur heimil-
isins í sér minni hættu á margs konar smitsjúkdómum. Flugur, sem eru næst-
um órofinn hluti af jarðföstum heimilum, sjást vart á heimilum WoDaaBe.
Samhjálp er samofin mikilvægi hreyfanleika á margvíslegan hátt í því að
minnka áhættu: „Við fylgjum kúnum okkar til að hafa i okkur og á, en
bræðrum okkar ef við eigum engar kýr,“ sagði fólk oft við mig til að leggja
áherslu á mikilvægi samhjálpar fyrir ættina og ljölskylduna. Eins og í flest-
um öðrum samfélögum er slíkt ósjálfstæði neyðarúrræði vegna þess að fjöl-
skyldufaðir sem á engar kýr eða hefur ekki nóg fyrir sig og sína, er upp á
aðra kominn (oftast bróður eða frænda) og ræður hvorki ferðum sínum né
búsháttum. Til að minnka líkurnar á að verða þannig upp á ættingja kominn
ef í harðbakkann slær líta einstaklingar á örlæti við aðra sem mikilvægan lið
í að tryggja velferð fjölskyldunnar til lengri tíma. Manneskja sem áður hefur
verið örlát á mat og lán við aðra ættingja er mun líklegri til að mæta velvild
annarra ef hún þarf á hjálp að halda. „Ef ég deili ekki með öðrum,“ sagði
maður nokkur við mig, „get ég ekki ætlast til að aðrir deili með mér síðar ef
ég þarfnast þess.“ í þessu samhengi lagði hann áherslu á mikilvægi þess að
deila með öðrum í stórfjölskyldunni þegar honum hafði áskotnast fé eða
verðmæti.
Árstíðabundinn skortur eða erfiðleikar eru þó að ákveðnu marki venju-
bundnir í lífi margra á Sahel svæðinu.15 Hirðingjarnir óttast mun frekar að
missa hjarðir sínar í slæmu árferði og að fótunum verði þannig kippt enn
frekar undan framfærslugetu þeirra. Sköpun félagslegra tengsla er mjög
mikilvægt í því að stuðla að auknu öryggi í þessu samhengi. Kerfi sem miða
að því að skapa félagsleg tengsl í gegnum lán eða gjafir á kúm þekkjast í
mörgum samfélögum Afríku og stuðla að áhættudreifingu yfir á stærri hóp.
Habana ’i er trúlega mikilvægasta gjafaskipta-lánskerfið meðal WoDaaBe en
það byggist á því að einstaklingur fær kvígu að láni og hefur hana þangað til
hún hefur borið tveim kálfum. Kúnni er þá skilað til upprunalegs eiganda en
lánþeginn heldur kálfunum. Lán eiga sér einnig stað á öðrum dýrategundum
og lúta þá svipuðum eða sömu lögmálum og habana ’i.
Gildi slíkra lána felst í að þeir sem hafa misst stóran hluta dýra sinna geta
endurnýjað hjarðir sínar á mun skemmri tíma en ella með mörgum habana ’i
lánum. Skammtímamarkmið lánanna eru samt ekki síður mikilvæg því að
lánþeginn fær mjólkurkú eða kýr að láni og við það hefur hann fæðu fyrir
fjölskyldu sína. Einstaklingurinn sem lánar kú sína er einnig að tryggja
15 Hamilton, Popkin og Spicer 1984.
56