Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Síða 107
hundur, þá er Guðs börnum af honum skaðinn vís og jafnvel hans eigin
börnum oftlega. Þótt að satan og hans vinir hati Guð mest og þá, sem eitt
eru með honum, þá er hann þó í sjálfum sér sundurþykkur. Ekki elskast hans
þjónustumenn lengi innbyrðis, þegar þar er að keppa um það, sem þeir hafa
gjört sér að guðum. Svo sem Kristí þénarar eru viðkvæmir, nær þeirra höfuð
er meitt, svo er og djöfullinn í sinni kynslóð (159).
Höfðingi heims, títtnefndur satan, er sem flaðrandi en þjófgefinn hundur,
segir sveitamaðurinn Jón Vídalín glottandi. I því sem fer hér á eftir verður
dregið saman hvernig Vídalín lýsir hinum viðsjárverða rakka hins illa og
hversu hættulegur hann er öllum guðsbörnum.
Samhengi guðsímyndar Vídalínspostillu er hið altæka eða kosmíska stríð
sem Guð á í gegn valdi hins illa, satans. Vídalín fylgir Marteini Lúther um
djöfulstjáningar. Hvorugur taldi sig þess umkominn að skilgreina vald hins
illa. Hvorugur taldi að vald satans væri jafnmikið valdi Guðs. Þeir aðhylltust
því ekki frumspekilega tvíhyggju, þ.e. að til væru tvö jafnstæð máttarvöld.
Báðir aðhylltust hins vegar siðferðilega tvíhyggju, að tvö völd tækjust á,
annað gott og hitt vont. Satan er ekki skilgreindur hlutlaust og sem sjálfstætt
afl, heldur túlkaður í ljósi þeirra árása sem hann gerir á guðsríkið. Vald satans
er fyrst og fremst afvegaleitt vald Guðs og jafnframt afskræming þess valds
(189, 231, 388, 624). Atferli satans felst í því að reyna að brengla hina góðu
skikkan skaparans og þar með veikja vald Guðs. I niðurrifsstarfi sínu notar
hann ára sína, herflokka sem eiga bandamenn í veikleika manna eða það
sem Vídalín nefnir hold og blóð. Satan reynir að afvegaleiða menn frá réttu
trúnaðar- og ástarsambandi við Guð. Þegar svo fer verður maðurinn þjónn
satans. Samband manna við djöfulinn er fyrst og fremst hlýðnisamband
þræls við húsbónda sinn, ekki samband ástvina (231). Mannsins er freistað
daglega af óvininum. Hann er hvergi óhultur. Eins og Lúther lagði Vídalín
áherslu á hinn innri mann og trúnað hans. í prédikun um hina tvo herra er
þessi áhersla hvað skýrust. Þótt hugur mannsins sé hin dásamlegasta skepna
verður honum ekki tvískipt. Djöfullinn vill ekki lúta Skaparanum og Guð
getur ekki lotið heiminum og breyskleika hans. I baráttunni við Guð notar
djöfullinn mammon, auðsóknina, til að knýja huga mannsins til þjónustu
(624, 629). Þeir sem lúta peningagoðinu hafa þegar hafnað elskusambandi
gagnvart Guði. Það eru drottinssvik og að lúta óvini himinsins.
Vídalín fjallar ekki aðeins um einstaklinginn, innræti hans og tiltrú,
105