Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Side 14
Árið 1855, manntalsár, eru 455 menn í sveitinni, en heiðabyggS-
in stendur þá í blóma. Þá eru 24 menn á Eiríksstöðum á búi þeirra
Jóns og Guðrúnar og efnahagur þeirra talinn sérlega traustur. En
Jón dó 1859, og voru börnin þá lítt til þroska komin. Aðalbjörg og
Anna giftust og bjuggu á Seyðisfirði, Ragnhildur og Sigurbjörg
giftust ekki. Guðlaug átti Jónas, er varð skólastjóri á Eiðum, Eiriks-
son, og svo voru bræðurnir Jón og Gunnlaugur. Jón kvæntist um
1870 Aðalbjörgu frænku sinni, dóttur Metúsalems sterka frá Möðru-
dal, áttu þau eitt barn er dó ungt og Jón dó 1873. Aðalbjörg átti síð-
an Jón Kerúlf Andrésson, Jörgenssonar læknis.
Guðrún bjó nú áfram á Eiríksstöðum og var Gunnlaugur fyrir
búi hennar, þá ungur maður. Bjó Guðrún rausnarbúi og var nafn-
fræg fyrir höfðingsskap, stálgreind kona, minnug og fróð á ættir.
Þannig liðu árin fram að öskufallinu 1875. Þá varð jörðin óbyggileg
með öllu og sjálfsagt ekki í fyrsta sinn af slíkum áföllum. Yarð
Guðrún að leita sér ráðs í annarri sveit. Hún keypti Fremri-Hlíð í
Vopnafirði og bjó þar meðan greri upp úr öskunni á Eiríksstöðum.
Það var 1878 sem hún gat snúið við og kom þá öðruvísi en hún
fór. Hallaðist ekki búskapur Guðrúnar í Fremri-Hlíð og höfðings-
skapur hennar var samur við sig. Var það sögn, að fyrir jólin eitt
sinn er hún bjó í Hlíð þóttist bún þurfa að gleðja fátæk hjón er
bjuggu á næsta bæ. Sonur hjónanna, eigi mikill fyrir sér, var stadd-
ur hjá henni og lét dálítið af sér. Guðrún spyr hann þá hvað mikið
hann geti borið milli bæjanna, en strákur treysti sér nokkuð. Fór
þá Guðrún að tína í poka. En er strákur sér pokann verður honum
að orði: „Osköp ertu nú vitlaus auminginn“. Var helzt talið að
hann meinti það hvað það væri vitlaust að gefa svona mikið.
Skotið hafði verið saman nokkru fé til styrktar þeim sem liðu
tjón af öskufallinu, og eigi sízt meðal útlendra þjóða, einkum Eng-
lendinga. Guðrún fékk dálítið af þessu fé, og hún notaði það til að
kaupa Eiríksstaði, þakta svartri öskunni. Átti þá Skeggjastaðakirkja
jörðina.1 Þetta heitir að trúa á landið sitt og elska landið sitt, og
1 Sumir telja að Eiríksstaðir hafi verið keyptir áður. En Vilhjálmur Gunn-
laugsson Snædal sagðist ekki muna betur en goldið hefði verið í kirkjusjóð af
Eiríksstöðum fram yfir aldamót 1900.
12
MÚLAÞING