Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Qupperneq 28
Sögur fóru af gömlum Jökuldælingum á Tunguseli bæði til munns
og handa, og oft höfðu þar verið fleiri hestar á ferð en nú, en
tæpast einn maður með. Ég ákvað að stanza í tvo tíma. Ég var búinn
að reyna það, að gæfan á lestum fer að mestu eftir því, að hestarnir
séu vel haldnir, fái að fylla sig vel og nógu oft. Ef hesturinn er
fullur eða ekki svangur, rólar hann í sínu góðlyndi með sína byrði.
Ef hann er svangur getur hann farið að leggja kollhúfur og bíta frá
sér, en allir hnykkir og rykkir eru vondir í lestaferðum. Þá fer
þreytan líka að sækja á hestinn, en þá er ferðagæfan í veði.
Nú 'hafði ég stanzað í tvo tíma og leiddi nú hvern hest að sínum
klyfjum og tyllti þeim við klyfjarnar og herti á gjörðunum og fann
nú hversu hestarnir voru vel haldnir. Ég setti upp á forustuhestinn
fyrst og batt upp á hann tauminn, svo koll af kolli, og varð þetta
að gerast á nokkrum mínútum, því er Bleikka var lögð á stað, vildu
hinir hestarnir ógjarnan bíða, og það skipti ekki mörgum sekúndum
að ég afgreiddi hvern fyrir sig með klyfjum, og var það góður
sprettur. Svo rólaði öll lestin í rólegheitum götuna og var komin
nótt. Allt var að verða hljótt, fuglinn að þagna. Heiðin er lág og
auðveld, að eins í fangið fyrsta sprettinn. Veðrið var enn milt og
fagurt og ekki útlit fyrir veðrabreytingu. Þegar kom suður að Geld-
ingafellinu fór ég að finna til þreytu og svefn að sækja á mig. Ég
dottaði á hestbakinu og vaknaði við það að hestur minn rak sig á
aftasta klyfjahestinn. Þegar kom inn fyrir Geldingafell, taldi ég rétt
að stanza og tók ofan í ágætum haga. Hafði ég sama hátt og jafnan
að stanza í tvo tíma, svo hestarnir gætu fyllt sig vel. Allt í einu
gaggar tófa, langt vestur í heiði, upp af Brunanum, þar sem bærinn
Brunahvammur er, innst í Hofsárdal, stutt frá Möðrudalsfjöllum.
Onnur tók undir fyrir austan mig, yzt í Sandfellinu. Þeim hafði
víst lánazt að búa þetta árið, en eitthvað hefur þurft í skurðinn að
ganga og heimtur Vopnfirðinga um haustið borið því vitni. Nú var
fuglinn vaknaður. Sólin gyllti fjöllin. Mörg vötn eru þarna á heiðinni
við veginn, Geldingavatn, Langhólmavatn, Hólmavatn, Stórhólma-
vatn og Skagatjörn. Fuglarnir sungu á vötnunum. Veiði er í öllum
vötnum og mest notuð frá Ármótaseli og Háreksstöðum. Nú fann ég
að hestarnir voru orðnir vel hvíldir og fullir, og hafði ég nú sama
hátt á og áður að láta upp. Hélt svo á stað, en fann nú fyrst að marki
26
MULAÞING