Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Síða 43
þér mjólkursopa áður en þú ferö.“ Rétti húsfreyja þá dóttur sinni
ausu sem tók mörk og var kölluð „Krubba“, fulla af rjóma. Hún
hafði rétt áður verið að renna trogum. Margrét þakkaði drykkinn
og hélt leiðar sinnar. Var ferðinni heitið austur í svokallað Hlaupa-
tagl. Þar var grasgefið og mjög víðáttumikið engi. A leiðinni var
djúp kelda. Studdi Margrét sig með annarri hendi við orfið meðan
hún fór þar yfir, en með hinni sló hún upp fyrir sig. Gætti hún þess
ekki hvernig ljárinn sneri, lenti höndin í ljáinn og skarst hún illa.
Ekki lét hún þetta á sig fá, en fór sem hún ætlaði og tók að slá
sem ákafast. Rann blóðið niður orfið og litaði það rautt. Smám
saman minnkaði blæðingin, og sló hún til kvölds og varð ekki
meint af. En örið bar hún til æviloka. Sýnir þetta hve Margrét var
harðger og viljasterk.
Á Syðri-Steinsmýri var aldrei borinn matur á engjar. Olafur
bóndi var vinnuharður, en góð regla á öllu bæði utanbæjar og
innan. Var nógur matur og góður. Þóttu bæði hjónin góðir hús-
bændur, og líkaði öllum þar vel þrátt fyrir stranga vinnu. Ölafur
bóndi leyfði fólki sínu að eiga frí nokkra daga eftir að vorverkum
var lokið áður en sláttur hófst. Gengu dætur hans þá sunnudags-
klæddar í rósóttum dagtreyjum, dökkum felldum pilsum með ljós-
um mittissvuntum, hárið fléttað í fjórar fléttur og endarnir næld-
ir upp undir húfufitina, í dökkum sokkum með sortulitaða skó
á fótum. Var það glæsilegur hópur; litu margir ungir piltar þær
hýru auga. Margrét var í hærra meðallagi á vöxt, þrekleg og vel á
sig komin, rjóð í kinnum og hörundsbjört. Hárið gullbjart að lit,
bæði þykkt og sítt, augun dökkblá, skýr og gáfuleg. Hún var ein-
örð og sköruleg í allri framkomu, glaðlynd, spaugsöm, hreinlynd og
bjartsýn. Hún var vel stillt. Kváðu kunningjar hennar oft til hennar
þessa alkunnu gömlu vísu:
Þú ert Manga þægileg,
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar eiga þig
eikin spanga fögur.
Á sama tíma og Margrét vex upp á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi
er áðurnefndur piltur, Páll Þorsteinsson, að alast upp hjá sínum for-
MULAÞING
41