Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Síða 106
en þó var eldhúsið í notkun. Þar var eldað slátur á haustin, og kjöt
reykt í rjáfrinu, og þar voru geymd skinn til skógerðar á bitum
uppi. 011 voru þau fyrst blásteinslituð, sum spýtt út um hóla, t. d.
Stjörnuhól, og stafna, aldrei þó á austurstafnana, og vafin upp í
stranga; önnur hengd yfir bitana hrá og vot af blásteinsvatni til að
taka í sig reyk. Biksvart, fitukennt sótlag var um allt rjáfrið, og upp
úr mæni botnlaus tunna í upphlöðnum strompi. I eldhúsinu voru
tvennar hlóðir nokkurn veginn undir strompinum og gengt kringum
þær, þar voru bökuð pottbrauðin, tveir vænir hleifar í senn, líkastir
sitjanda, og þeir voru settir á járnplötu í mulinni glóð, potti hvolft
yfir, og rótað yfir pottinn glóð, hálfbrunnum eldiviði, t. d. taðflög-
um, og ösku. Eftir 10—12 stundir mátti skammta heitt brauðið, og
krakkarnir rifust um skorpuna sem myndazt hafði niður við plöt-
una; í henni var kalk úr öskunni. Yatnstunnan stóð í suðvesturhorn-
inu, hlandkjagginn fyrir miðjum vegg og eldiviðarhlaðinn í suð-
austurhorni og gat þar yfir úr bæjarsundi þar sem eldiviðnum var
steypt niður.
Búr og Innrabúr voru í sama húsi. Smáþilstafn að sunnan, en
norðurstafninn hlaðinn upp úr. Gluggar á báðum stöfnum. Moldar-
gólf var í Búri, en timburgólf í Innrabúri, og það alþiljað, kjallari
undir hlaðinn úr grjóti. Þar var geymdur súrmatur og saltkjöt í
svala og dimmu. Skilvindan og mjólkurílát voru í Innrabúri, elda-
vél í Búri, og þar voru kartöflurnar grafnar niður í gólfið á haustin.
Meðan Eiríkur Sæmundsson bjó í tvíbýli á Hallfreðarstöðum
hafði fjölskylda hans eldhús í Búri og borðaði í því innra. Auk búr-
anna hafði Eiríkur og hans fólk Uthús í baðstoíu og Utstofu með
loftinu yfir, en hinn ábúandinn, Ingibjörg Jakobsdóttir, Suðurhús
og Miðhús í baðstofu, Suðurstofu (salinn) ásamt Salloftinu og
Skála. Sameiginlegt yfirráðasvæði voru aðrir hlutar bæjarhúsanna.
Suðurhúsin þrjú í baðstofunni voru með betra handbragði á
viðum öllum en norðurendinn. Einkum þó Miðhús og Suðurhús.
Þar voru t. d. gólfborðin úr nótuðum kaupstaðarviði, borð í súð,
þiljur og sperrur í samræmdum stærðum og sléttheflað allt. Að öðru
leyti var byggingarlag svipað nema hvað mænirinn var gleiðari í
suðurhlutanum, en sperrurnar komu annars ekki saman í toppinn í
hvorugum hlutanum, heldur var kálfasperra á milli, og þó enginn
102
MULAÞING