Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Side 114
aðeins 38 ára er hann lézt, úr brjóstveiki stendur í Æviskránum og
Benedikt segir að hann hafi verið í rekaviðarferð á Borgarfjörð og
hafi ofreynt sig á að færa klyf til klakks. Getur það að sjálfsögðu
farið saman. Börnin voru þá öll kornung, Páll níu ára og Siggeir
eins árs. Malena flutti fljótlega með þau og Sigríði móður sinni frá
Hallfreðarstöðum. Systurnar Sigríður og Þórunn ólust upp hjá
móður sinni og ömmu, en drengirnir fóru í fóstur.
Strax eða skömmu eftir andlát Páls sýslumanns hefur Guðmund-
ur Jónsson komið í Hallfreðarstaði. Hann er þar 1818, og fyrsta ár
sóknarmannatalsins býr hann þar fimmtugur að aldri og kona hans
Björg Runólfsdóttir, 55 ára með fjögur börn, m. a. Guðrúnu móð-
urmóður Guðmundar frá Húsey. í öðru lagi búa þar — eða eru
þar — mæðgurnar Malena og Sigríður, aftur þangað komnar frá
Víðivöllum í Fljótsdal. Hjá þeim var Margrét dóttir Guðmundar
bónda er síðar varð fyrsta kona Guðmundar Bjarnasonar frá Ekru
er síðar bjó á Hallfreðarstöðum. A búi Guðmundar og Bjargar voru
10 manns í heimili, en á hinu heimilinu fimm konur. Varla hafa
þær búið mikið og ekki gott að segja á hverju þær hafa framfleytt
sér. Þó hefur Malena líklega átt a. m. k. hluta jarðarinnar, og ef til
vill hefur einhver ögn Krossvíkurauðs og Orums verzlunarhagnaðar
staðnæmzt í þeirra garði.
Næstu þrjú ár vantar í sóknarmannatalið, en á því tímabili and-
aðist Malena, 1824.
Árin 1826 og 1827 eru fjórar í kvennaheimilinu, Sigríður gamla
með dótturdætrunum og Margrét, og 12 á hinu heimilinu. Síðan
vantar árið 1828, en þá dó Sigríður. Árið 1829 hafa heimilin runn-
ið saman í eitt, heimilismenn eru þá aðeins 14 að tölu og er það
óvenjulega fátt á Hallfreðarstöðum. Þar eru þá „Jómfrú Sigríður
Pálsdóttir“ 20 ára í sjálfsmennsku, „ráðvönd og gáfuð“ og „Jómfrú
Þórunn Pálsdóttir“, 17 ára, í sjálfsmennsku, „siðprúð og gáfuð“.
Árið 1830 vantar Hallfreðarstaði í manntalið, en þá er Þórunn
komin í Kirkjubæ, og þar er þá Halldór er síðar varð fyrri maður
hennar, 16 ára.
Árið 1831 er kona Guðmundar horfin og enn 14 í heimili, en
næsta ár fjölgar um fjóra, og þá hefur Sigríður dóttir bónda krækt
sér í norðlenzkan mann, Friðrik Olafsson, og breytzt úr heimasætu
110
MULAÞING