Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Page 150
þeirra Jakob. Þetta var fermingarvorið hans. Hann lifir enn (1966)
vestur í Ameríku. I bréfi frá honum dags. nú um s.l. áramót (1965
-----1966) minnist hann vorsins 1892 á þennan hátt: „Þá var snjór
og dauði og djöfull fram eftir öllu sumri. Ég fór 1. júní á skíðum út
í sveit. Þá mældi ég snjóinn á Hólalandsblánni á stafnum mínum.
Hann var 3 fet. Snjóinn tók aldrei um sumarið úr lækjargilinu við
bæinn í Hvannstóði.“
Þó veðrátta færi batnandi eftir því sem á vorið leið tók snjóinn
seint. í 9. sumarvikunni voru heimaærnar hans Eyjólfs afa míns
fyrst látnar út, á litla randa sem orðnir voru auðir á Brekkunni upp
af bænum, framan við Hólgilið.
Sláttur hófst ekki fyrr en upp úr miðju sumri. Heyskapartíð var
einhver sú allra erfiðasta sem menn mundu, oftast norðaustan kulda-
stormar með meiri og minni úrkomu. Þornaði oft til seinnihluta
dagsins svo blásið hafði af lieyi með kvöldinu. Var þá farið að rífa
upp og snúa heyi. Var oft unnið við það meirihluta nætur. Þegar
kom fram á morgun gekk aftur yfir með skúrum, stundum svo snögg-
lega, að heyvinnufólkið kom hrakið til bæjar. Leið svo fram yfir
höfuðdag, að ekkert hirtist, þrátt fyrir óskaplegt erfiði manna við
heyskapinn. Þá komu nokkrir þurrkblástursdagar. Vann fólk þá að
þurrkun og hirðingu eftir því sem orka leyfði og lagði nótt við dag.
Á þessum dögum náðist saman ótrúlega mikið hey. Það sem þá
var óhirt náðist ekki því sama veðrátta og verið hafði um sumarið
tók aftur við að liðnum þessum fáu þurradögum. Sumstaðar var
heyhrúkum, sem eftir voru á engjum, ekið heim á tún, þegar snjór
var kominn, í von um að einhverju liði gæti orðið.
Sem að líkum lætur reyndust heyin illa, marghrakin og sumt
illa hirt. Taða víða við bruna. Vetur lagðist snemma að. Ur byrjuð-
um nóvember rak niður ódæma snjó. Urðu miklir erfiðleikar við að
ná fé úr fjöllum, sumt fennti, og einhverjir hestar fóru í fönn. Um
miðjan vetur voru hey sumstaðar að þrotum komin. Var þá enn
rekið til Héraðs. Með féð frá Gilsárvallabæjum fóru faðir minn og
Þorsteinn Olafsson á Gilsárvöllum. Það var í góubyrjun. Var Hjá-
leiguféð rekið alla leið að Geitagerði í Fljótsdal. Þá var Fljótsdalur
alauður. Eftir að hafa losað sig við féð héldu þeir félagar heimleiðis.
Hugðust þeir fara Sandaskörð. Færi hafði verið þar sæmilegt, er
146
MULAÞING