Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1971, Side 162
Þar tókust þeir á fast. Fann þá Jón, að hann hafÖi ekki afl á við
Nadda, og þótti honum sem mundi hann kreista hold allt frá beini.
Hét hann þá fyrir sér að fjölga kirkjuferðum sínum, ef hann fengi
unnið óvættinn, því hann hafði ekki verið kirkjurækinn maður.
Var þá sem kippt væri fótum undan Nadda, og hryggbraut Jón
hann þar. um klett einn og bylti honum síðan í sjó út. Varð ekki
síðan vart við Nadda, en Jón komst heim að Gilsárvalla hjáleigu
um kvöldið og lá í 3 vikur eftir viðureign þeirra. Var þá krossinn
settur þar sem sigurvinningar merki. Það hafði fyrrum verið siður
ferðamanna, er þeir komu að krossinum, að þeir tóku ofan höfuð-
fat sitt og gjörðu bæn sína, en nú er það aflagt. — (Naddasögn séra
Benedikts Þórarinssonar pr. á Desjarmýri (1831—37) dags. 4.
jan. 1848 í skýrslu til Norræna fornleifafélagsins. Hér tekin eftir
grein Jóhanns Briem í jólablaði Tímans 1959, en varðveitt í ljós-
riti í Þjóðminjasafninu með fornleifaskýrslum).
Þorvaldur Thoroddsen 1894: — Frá Höfn fórum við til Njarð-
víkur. Er mýrarhjalli út með fjallinu vestan við fjörðinn út fyrir
Snotrunes. Blágrýti er þar víðast í klöppum við sjóinn, en þó er
víða líparít innan um. Nokkru eftir að kemur fyrir neshornið taka
við Njarðvíkurskriður. Þar eru þverhníptir blágrýtisklettar með
sjónum, en brattar skriður fyrir ofan með tæpri götu, skáskorinni á
ýmsan hátt. Fyrir neðan götuna eru sums staðar þverhníptar gjár,
og sogast sjórinn út og inn um þær, eins og í Pumpu hjá Stapa á
Snæfellsnesi. Gatan er mjó, en vel rudd og slétt og hvergi svaðar
eða klettar, en illt er fyrir þá að ríða slíka götu langan veg, sem
hætt er við að sundla. Þó eru margar skriður bæði á Austfjörðum og
Vestfjörðum verri yfirferðar en þessar skriður. Innarlega um miðj-
ar skriðurnar, við dálitla gilskoru, er trékross með letri. (Neðan-
máls: Á krossinum stendur: Effigiem Christi qui transis pronus
honora. Anno MCCCV.) Hann hefir oft verið endurnýjaður og er
víst mjög gamall, en engin vissa er nú fyrir því, að ártalið, sem nú
er á honum, sé rétt. Líklega hefir þar verið kross með Kristsmynd
til forna í katólskum sið. Þess konar krossmörk eru enn víða í kat-
ólskum löndum á hættulegum vegum. í Njarðvíkurskriðum bjó, að
því er sagan segir, fyrrum óvættur, er hét Naddi, og er kennt við
158
MULAÞING