Jökull - 01.12.1981, Síða 74
II. ANKARAMÍTBJÖRG Á
SÓLHEIMASANDI
Þótt ísland sé um margt gósenland jarðvís-
indamanna getur það ekki státað af miklum
fjölda bergtegunda. Fyrir næstum tveimur
áratugum bættist ein bergtegund í tölu þeirra,
er fundist hafa hérlendis, er Sigurður Stein-
þórsson kannaði og skrifaði prófritgerð um
sérkennilegt berg, sem er að finna undir Eyja-
fjöllum, í rótum Hvammsmúla austanverðum
og í þeim lága bergrana suður úr múlanum,
sem heitir því sérkennilega nafni Pöst. Rann-
sókn Sigurðar á þessu bergi leiddi í ljós, að hér
var nánast um þá bergtegund að ræða er
nefnist ankaramít og dregur nafn af stað,
Ankaramy, á Madagaskar. Þetta er fremur
sjaldgæf bergtegund, afbrigði basalts, mjög
dílótt og einkennist m. a. af miklu magni
olivíns og pýroxens. I dæmigerðu sýni
frá Hvammsmúla eru um 33% olivín, 37%
pýroxen, 21% plagíóklas og 9% járnsambönd.
Dílarnir eru að langmestu leyti pýroxen og
ólivín og eru pýroxendílarnir, svartir að lit,
yfirleitt stærri en ólivíndílarnir, sem eru sumir
flöskuglergrænir, en í ankaramítinu í
Hvammsmúla ber einnig talsvert á ummynd-
uðu olivíni, ryðrauðu, er nefnist iddingsít.
Sigurður telur ankaramítið í Hvammsmúla
vera innskot. Ritgerð hans um þetta: The
ankaramites of Hvammsmúli, birtist í Acta
Naturalia Islandica 1964.
Hægurinn hjá var að skoða þetta ankaramít
þeim sem óku þjóðveginn undir Eyjafjöllum
meðan hann lá um skarð gegnum Pöstin og
rétt utan við grjótnámu í ankaramítstálinu.
Nú hefur vegurinn verið færður suður fyrir
Pöstin og ankaramítið því ekki eins aðgengi-
legt vegfarendum og áður var. Því skal hér
bent á annan stað, þar sem auðvelt er að skoða
ankaramít og það raunar grófdílóttara og fal-
legra álitum en í Hvammsmúla.
Rétt austan við eystri sporð brúarinnar yfir
Jökulsá á Sólheimasandi getur að líta þrjú
björg ofan á sandinum skammt sunnan ak-
vegar. Það austasta, um 120 m sunnan vegar-
ins, er móberg, en 5 m suðvestan þess er
bjarg, miklu stærra, nær 3 m hátt og allmikið
Mynd 9. Stærra ankaramítbjargið nærri
eystri brúarsporði Jökulsár á Sólheimasandi.
Fig. 9. A large block of ankaramite near the eastern
head of the bridge across the river Jökulsá on Sól-
heimasandur. — Ljósm. (photo): S. Þórarinsson.
um sig (9. mynd), og er það úr grófdílóttu
ankaramíti. Hefur dálítið verið kvarnað úr
því, svo sér í fersk sár og kemur berggerðin þar
vel í ljós. Bjargið er gjallkent að nokkru og
bergið blöðrótt með holufyllingum geisla-
steina. Þriðja bjargið, um 45 m sunnan vegar,
er 1,3 m hátt og kollótt og einnig úr ankara-
míti. Ofan á það er fest merki Landmælinga
íslands er gefur til kynna, að þetta sé þríhyrn-
ingamælipunktur og varðar við lög að hrófla
við því, enda nægilegt að skoða syðra og
stærra bjargið.
Bæði eru þessi ankáramítbjörg borin fram í
jökulhlaupi. Þau eru óefað úr hraunlagi. I
einni vorferðinni með jarðfræðinemum, far-
inni þegar sporður Sólheimajökuls var fram-
lægri og greiðfærari en nú, fundu nem-
endurnir ankaramíthraunlag í hamrinum
sunnan í Hvítmögu. Er líklegt, að björgin á
Sólheimasandi séu úr því lagi.
Þess er að endingu að geta, að berghóll sá er
nefnist Arnarhóll og er skammt sunnan þjóð-
vegar við norðvesturhorn Holtsóss, er úr bergi
mjög svipuðu ankaramítinu í Hvammsmúla.
72 JÖKULL 31. ÁR