Bændablaðið - 12.02.2015, Qupperneq 31

Bændablaðið - 12.02.2015, Qupperneq 31
31Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015 Lesendabás Á opnum borgarafundi í Borgarnesi 30. janúar sl., þar sem fjallað var um framtíð háskóla í Borgarbyggð, var kynnt sú hugmynd mennta- og menningarmálaráðherra að sameina Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Hólaskóla – Háskólann á Hólum í eina sjálfseignarstofnun. Formanni Bændasamtaka Íslands leist vel á þessa hugmynd ráðherrans sem jafnframt felur það í sér að rétta megi af fjárhag skólans með því að krefja nemendur Landbúnaðarháskólans um skólagjöld. Taldi formaður BÍ að bændur væru orðnir hugsi yfir stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands og velti hann upp þeirri spurningu hvort skólinn væri notendadrifinn. Væri það einkum tvennt sem ylli mönnum áhyggjum, annars vegar að starfsmenntanámið væri orðið olnbogabarn innan skólans og hins vegar að þar væri ekki mikið stundað af hagnýtum rannsóknum. Var á honum að skilja að þetta væru nægilegar ástæður til þess að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands í núverandi mynd og réttast væri að sigla í þá átt sem ráðherra legði til. Hugum ögn betur að þessum fullyrðingum. Reikna má með að formaðurinn telji að það sé einkum búfræðinámið sem sé orðið olnbogabarn í rekstri skólans. Hefur það orðið raunin? Í töflunni má sjá fjölda útskrifaðra búfræðinga á árunum 2008 til 2014 og áætlaðar útskriftir 2015–16 miðað við fjölda nemenda í skólanum núna. Þarna hefur orðið heldur betur bragarbót á. Árið 2008 útskrifuðust 16 búfræðingar frá skólanum og flestir urðu þeir 47 árið 2013. Ef fer fram sem horfir og ekkert óvænt gerist gætu 66 búfræðingar bæst í hópinn á næstu tveimur árum. Í töflunni má einnig sjá að heildarvelta skólans hefur dregist saman úr 1.750 m.kr. árið 2008 og í 1.172 m.kr. á síðasta ári eða um 33%. Hefur þessi samdráttur ekki verið látinn koma niður á möguleikum skólans til þess að mennta búfræðinga – þvert á móti. Á þessu tímabili hefur fjöldi stöðugilda við starfsmenntadeild verið óbreyttur. Staðinn hefur verið dyggur vörður um starfsmenntanámið og því tæpast hægt að líta á það sem olnbogabarnið á heimilinu. En hvað með rannsóknirnar? Því miður er staðan ekki eins glæsileg þar. Samdrátturinn hefur komið af fullum þunga niður á rekstri háskóladeildanna. Þannig voru ársverk starfsmanna við háskóladeildirnar tæp 44 árið 2008 en eru nú orðin tæp 26 í upphafi árs 2015. Ekki hefur tekist að ráða inn nýja starfsmenn í stað þeirra sem hætt hafa vegna aldurs og er rúmur helmingur starfsmanna kominn yfir fimmtugt, og fimmtungur yfir sextugt. Kennslan hefur verið látin hafa forgang og tekið hefur verið við öllum þeim nemendum sem hafa haft áhuga á að hefja nám hafi þeir uppfyllt lágmarksskilyrði. Erfiðlega hefur gengið að afla rannsóknafjár og stefnir í að sértekjur vegna rannsóknaverkefna sem aflað var á liðnu ári verði einungis um 60% af því sem þær voru 2009. Eitthvað hefur því orðið undan að láta. En hafa starfsmenn misst áhugann á hagnýtum rannsóknum eins og formaðurinn gaf í skyn? Nú er erfitt að átta sig á hvað átt sé með hagnýtum rannsóknum í þessu samhengi. Er þarna verið að vísa til viðfangefnis rannsóknanna, hvernig niðurstöðum sé miðlað til notendanna eða hversu langan tíma það taki fyrir rannsóknirnar að bera ávöxt? Almennt er litið svo að á hagnýtar rannsóknir snúi að því að skapa nýja þekkingu með eitthvert tiltekið, hagnýtt markmið í huga. Það er óhætt að fullyrða að viðfangsefni allra þeirra rannsókna sem stundaðar eru á Landbúnaðarháskóla Íslands séu af hagnýtum toga með einum eða öðrum hætti. Tökum dæmi. Fyrir rúmum 25 árum hófst stórátak í að kynbæta bygg fyrir íslenskar aðstæður og aðlaga ræktun þess íslenskum skilyrðum. Afraksturinn er áþreifanlegur: fjögur ný byggyrki hafa litið dagsins ljós og síðustu sex árin hefur hlutdeild þeirra í markaðnum verið um þriðjungur að jafnaði. Að meðaltali tók það um 13 ár frá fyrstu víxlun að fá verslunarvöru í hendur en almenna viðmiðið í útlöndum er 15 ár. Tveir af hverjum þremur kúabændum rækta korn og eru akrar orðnir um 4.500 hektarar samtals. Af þeim fást um 17% af því fóðurkorni sem bændur nota nú í framleiðslu sína. Við höfum alla möguleika á að íslenskt heimaræktað korn fullnægt helmingnum af allri kjarnfóðurþörf landsins. Þekkingin er fyrir hendi. Nú eru að verða kynslóðaskipti í byggkynbótunum. Nýútskrifaður doktor í sameindaerfðafræði hefur bæst í hópinn og doktorsnemi vinnur að því að innleiða nýja tækni svo unnt sé að ná enn frekari árangri. Þeir munu birta niðurstöður rannsókna sinna í erlendum vísindatímaritum enda gerir doktorsnám kröfu um slíkt. Hætta þá rannsóknirnar að vera hagnýtar? Alls ekki. Tökum annað dæmi. Tveir doktorsnemar hafa útskrifast frá skólanum með sérþekkingu í kynbótafræði búfjár. Niðurstöður þeirra rannsókna birtust að sjálfsögðu í alþjóðlegum vísindatímaritum. Þarf nokkuð að deila um hvort viðfangsefni þeirra hafi verið hagnýt og komi að notum við kynbótastarf í landbúnaði? Tökum þriðja dæmið. Sýnt hefur verið fram á í umfangsmiklum rannsóknum síðustu 20 árin eða svo að ræktun fóðurbelgjurta geti skilað umtalsverðum ávinningi fyrir íslenska bændur, m.a. þar sem þær vinna nitur úr andrúmsloftinu með hjálp jarðvegsbaktería þannig að spara má kaup á tilbúnum nituráburði. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar í ræðu og riti á fjölbreyttum vettvangi innan lands og utan. Nú er það bændanna sjálfra, með hjálp ráðunauta, að nýta sér þá þekkingu sem aflað hefur verið til hagsbóta fyrir sinn rekstur. Er þetta ekki örugglega hagnýt þekking? Svona mætti lengi telja. Rétt í lokin er gaman að geta þess að hæsti styrkurinn, sem veittur var í byrjun árs úr Rannsóknasjóði að upphæð tæpar 42 m.kr., féll í skaut vísindamönnum úr Háskóla Íslands. Á undanförnum árum hafa þeir notað tölvuútreikninga til þess að finna leiðir við að afoxa N2 rafefnafræðilega við herbergishita og -þrýsting svo að hægt sé að framleiða ammóníak fyrir áburðarframleiðslu. Núverandi aðferð (Haber-Bosch) krefst mikillar orku og ef verkefnið heppnast gæti það valdið byltingu í landbúnaði á heimsvísu. Þetta er því gott dæmi um verkefni, sem við fyrstu sýn mætti flokka sem grunnvísindi en gæti skyndilega orðið hagnýtt á stórum skala. Ég vil því leyfa mér að draga í efa að þessi rök formanns Bændasamtaka Íslands dugi ein og sér til þess að réttlæta niðurlagningu Landbúnaðarháskóla Íslands í núverandi mynd. Þvert á móti þarf miklu fremur að óttast framtíð hagnýtra rannsókna í landbúnaði innan veggja sjálfseignarstofnunar þar sem hætta er á að lítið svigrúm gefist fyrir rekstur verkefna sem taka langan tíma og krefjast sérhæfðar þekkingar. Það sem Landbúnaðarháskóli Íslands þarf fyrst og síðast á að halda er stöðugleiki til þess að geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu. Áslaug Helgadóttir aðstoðarrektor Er Landbúnaðarháskóli Íslands ekki örugglega notendadrifinn? *Áætlað Áslaug Helgadóttir Hótel Grásteinn 2 manna herbergi með morgunmat, verð 9000 kr.* Bjóðum upp á úrvals gistingu og fría geymslu á bíl á meðan dvalið er erlendis. Bolafótur 11, 260 Reykjanesbær Sími 4215200 - hotelgrasteinn@simnet.is *verð miðast við bókun í gegnum síma eða email. Þinn dagur, þín áskorun OLYMPIA Höfðabakka 9, 110 Reykjavík • Sími 561 9200 • run@run.is • www.run.is Sölustaðir: 30 ÁRA 100% Merino ull Góð og hlý heilsársföt fyrir karla og konur Stærðir: S – XXL Nova X-Dry getur innbyrt allt að tvöfalda þyngd sína af raka Nova X-Dry - rakadrægt og sótthreinsandi • Þurrkar • Eyðir lykt • Sótthreinsar • Minnkar hættu á sýkingu • Dregur úr vaxtar- skilyrðum skordýra Einstakt undirburðarefni fyrir stíur og bása Kemi • Tunguhálsi 10, 110 Reykjavík • www.kemi.is • Sími: 415 4000 Opið: Mánudag - fimmtudags: Frá kl. 8.00-17.30. Föstudaga: Frá kl. 8.00-17.00

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.