Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 15

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Page 15
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 2014 11 Hér segir Valgerður Hjartardóttir, hjúkrunarfræðingur og djákni hjá Karitas, frá sjö ára stúlkunni Eddu en mamma hennar er með brjóstakrabbamein. Bókina um Eddu skrifaði Valgerður í meistaranáminu sínu í fjölskyldumeðferð og fékk Tímarit hjúkrunarfræðinga að birta nokkra kafla úr henni. Fallegu myndirnar í bókinni gerði Sigurlín Rós Steinbergsdóttir. KRABBAMEINIÐ HENNAR MÖMMU Mamma greinist með krabbamein Þegar ég kem heim úr skólanum í dag taka mamma og pabbi á móti mér. Þau segja mér að þau þurfi að tala við mig og Agnar. Ég er voða smeyk. Pabbi er mjög alvarlegur. Ég spyr hvort ég sé í vondum málum. Pabbi tekur utan um mig og segir mér að svo sé ekki. Við setjumst öll í sófann í sjónvarpsholinu. Mamma segir okkur að hún sé með krabbamein í öðru brjóstinu. Ég fer að skæla og verð hrædd. Ég veit að það er ekki gott að fá krabbamein. Agnar spyr hvort það sé hættulegt. Mamma segir okkur að hún eigi góðar vonir að ná sér alveg. Það eru til margar tegundir af krabbameini og ekkert krabbamein er eins. Það er því ekki hægt að bera krabbamein saman. Mamma segist vera heppin. Hún er með krabbamein sem hægt er að lækna. Krabbamein, hvað er það? Ég spyr mömmu hvar hún hafi smitast af krabbameininu. Mamma segir að krabbamein sé ekki smitandi. Pabbi segir okkur að enginn viti alveg af hverju fólk fái krabbamein. Það geta verið margar ástæður. Ég fer að hugsa hvort krabbamein sé eins og lítið krabbadýr inni í mömmu minni og ég segi það upphátt. Agnar hlær að mér og pikkar í mig. Ég veit hvað það þýðir. Þá segi ég eitthvað kjánalegt sem honum finnst asnalegt. Pabbi segir mér að við séum öll gerð úr litlum frumum og höfum margar milljónir af þeim. Allar frumur þurfa að vinna ákveðið starf til að líkaminn virki rétt. Alla daga eru nýjar frumur að verða til en stundum gerist eitthvað og einhver ein fruma fer að vaxa öðruvísi en allar hinar. Þá getur orðið til æxli sem líkaminn þekkir ekki og truflar starfsemi líkamans. Æxli getur orðið að krabbameini og þau geta komið mjög víða í líkamanum. Sum eru alvarleg en önnur ekki. Mamma og pabbi eru leið og ég líka. Pabbi og mamma vona að allt verði í lagi. Mamma segir að það verði allt í lagi með hana. Hún sé hraust og sterk kona. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af henni. Pabbi segir að krabbameinið hafi áhrif á okkur öll og það geti orðið breytingar hjá okkur öllum á næstu mánuðum. Ég hef áhyggjur og skammast mín líka pínu. Ég er svo oft reið við mömmu mína. Hún er oft svo ströng. Þá get ég hugsað svolítið ljótt. Kannski er krabbameinið hennar mömmu mér að kenna. Ég fer aftur að vola við tilhugsunina. Pabbi tekur mig í fangið og huggar mig og segir mér að krabbameinið sé ekki neinum að kenna. Það getur enginn við þessu gert. Krabbamein er engum að kenna. Ljótar hugsanir valda ekki krabbameini. Valgerður Hjartardóttir, valgerdur@karitas.is

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.