Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Blaðsíða 25
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 4. tbl. 88. árg. 2012 21
fiskvinnsla og stundum koma menn með
krók í fingri og þess háttar. Menn dytta
að húsunum sínum og nýlega skar maður
sig á gleri alveg niður í sinar og bein. Svo
verða oft slys um áramót þegar menn
fara með flugelda. Einnig veikjast menn
og hafa til dæmis krabbameinstilfellin
verið nokkuð mörg síðustu ár. Susanne
segist tengjast fólki allt öðru vísi en ef
hún væri að vinna á stóru sjúkrahúsi.
Hún sé ein af fjölskyldunni og hluti af
samfélaginu. „Á sjúkrahúsi er maður bara
farinn heim og sjúklingarnir eru áfram í
góðum höndum því einhver annar sinnir
þeim. Maður tekur þetta ekki svona inn á
sig. Hér er ég hluti af þessu fólki og tek
þetta allt öðru vísi, tek það með heim.“
Susanne fyndist stundum gott að hafa
samstarfsmann til að tala við. Henni
finnst hin líkamlega erfiða vinna sem fylgir
heimahjúkrun ekki vera vandamálið. „Nei,
maður verður bara að gera þetta sjálfur,
ég er stór og sterk! Ég hef stundum
fengið sjúkraflutningamenn til að hjálpa
mér að bera fólk út úr húsi og koma
því inn í bíl. Svo hjálpa aðstandendur
stundum til. Það er andlega álagið sem
er svo miklu erfiðara. Mér finnst erfitt að
sjá dauðvona ungt fólk kveljast. Þá þýðir
ekki að fara heim í heitt bað til að hrista
það af sér,“ segir hún. Það væri auðvitað
hægt að hringja og ræða við einhvern
á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum en
henni finnst erfitt að taka upp símann
þegar hún hefur ekkert áþreifanlegt
vandamál til að ræða. „Mér finnst oft ekki
erindi til þess af því að það er ekkert að
þannig séð. Ég hef stundum beðið um
að fá vissan tíma í viku til þess að gefa
skýrslu en þetta bara gengur ekki upp.
Menn hafa alveg áhuga en ekki tíma og
örugglega meira en nóg að gera hjá sér,“
segir Susanne. Hún vill samt ekki halda
því fram að hún hafi yfir miklu að kvarta.
„Það er bara dálítið álag að vera alltaf til
staðar og spurning um hvernig maður
höndlar það. Ég er farin að læra að ég
þarf ekki að standa ein, ég get bara
hringt í Egilsstaði ef þess þarf. Ég þarf
bara að taka fyrsta skrefið og það er alltaf
vel tekið á móti mér þegar ég hringi.“
Enginn krefst hetjudáðar
Susanne hefur alltaf gert kröfu til sín um að
þurfa að kunna allt og geta tekist á við allt
sem gerist en er farin að átta sig á að það
er ekki hægt. „Ég þarf ekki að einsetja mér
að vera ofurhjúkka, ég má alveg viðurkenna
að ég get ekki allt. Það tók mig mörg ár. En
það krefst enginn þess af mér. Mér finnst
allt í lagi að viðurkenna, eins og þegar ég er
með fræðslu í skólanum og fæ spurningu,
að ég viti ekki svarið. Hver er munurinn á
fæðingabletti og freknu? Ég bara veit það
ekki, ég verð að gúgla það. Og því er ekki
tekið illa. En maður lærir alveg ótrúlega
mikið á því að vera hjúkrunarfræðingur á
svona litlum stað.“
„Það er mjög fjölbreytt vinna hér. Ég þarf
bara að stunda meiri símenntun. Stundum
hef ég sótt fundi skólahjúkrunarfræðinga
en ekki mikið meira en það. Núna þegar
börnin eru orðin stærri langar mig að fara
á námskeið til Akureyrar eða Reykjavíkur.
Ég hef sótt nokkur endurlífgunarnámskeið
til Rauða krossins en vildi gjarnan læra
meira um bráðahjúkrun. Svo er það
sárameðferð, hjartahjúkrun og fleira sem
ég vil læra meira um,“ segir Susanne.
Enginn tími til að láta sér leiðast
„Mér leiðist ekki,“ segir Susanne þegar
spurt er hvernig gangi að vinna fulla vinnu
og sinna líka bústörfum. „Þetta gengur
en börnin þurfa að bjarga sér og hjálpa
til, líka í búskapnum. Við erum í sveit, þar
gengur allt. Vinkona mín úti í Þýskalandi,
sem er líka hjúkrunarfræðingur, vinnur
hálfa vinnu sem er minna en hér því
þeirra vinnuvika er styttri. Henni finnst
það alveg yfirdrifið nóg. En mér finnst
bara gaman að hafa eitthvað að gera
og það er ekki beint vinna að þurfa svo
að gefa og moka, þetta er bara eins og
frístundagaman.
En maður er ekki búinn klukkan fjögur. Ég
er með ákveðinn tíma á heilsugæslunni en
hitt er mjög sveigjanlegt. Mér finnst gott
að gefa mér góðan tíma með hverjum og
einum.“
„Svo er gott að stunda búskap til að
halda sönsum. Við erum með tuttugu
hross og fjörtíu kindur, þetta er nú ekki
neinn stórbúskapur. En þetta er mjög
fínt og passlegt og maður kemst yfir
þetta. Maðurinn minn er mikill sjúklingur
þannig að þetta er bara hæfilegt. Svo
er náttúran hér alveg yndisleg og gefur
manni mikið. Það er eins og að lifa í
málverki. Fjallahringurinn er æðislegur
og ég get gengið milli húsa og heimsótt
sjúklinga, þetta eru bara forréttindi.
Frekar vil ég vera hér og komast ekki yfir
fjallið á veturna en að vinna á spítala fyrir
sunnan,“ segir Susanne.
Séð yfir þorpið á Borgarfirði eystri.