Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Page 29

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Page 29
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 4. tbl. 88. árg. 2012 25 HLUTVERK RANNSÓKNA Í KLÍNÍSKU STARFI HJÚKRUNARFRÆÐINGA Í vetur verður fjallað ítarlega í Tímariti hjúkrunar fræðinga um hvernig viðbótarnám og rannsókna rniðurstöður geta breytt vinnulagi hjúkrunar fræðinga. Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, gefur hér lesendum sína sýn á mikilvægi rannsókna. Greinin er byggð á erindi sem hún flutti 14. maí sl. í tilefni af alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga. Sigríður Gunnarsdóttir tók nýlega við starfi fram kvæmda stjóra hjúkrunar á Landspítala en var áður dósent í hjúkrunarfræðideild og forstöðumaður fræðasviðs í krabbameinshjúkrun. Í fyrra kom hún á laggirnar stóru rannsóknarverkefni um verkjalyfja- meðferð. Hægt er að lesa um það í viðtali við hana í 2. tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga 2011. Til að tryggja öryggi sjúklinga og framþróun hjúkrunar gegna rannsóknir veigamiklu hlutverki í klínísku starfi hjúkrunarfræðinga. Þetta á ekki síst við á háskólasjúkrahúsi eins og Landspítala þar sem ekki er aðeins veitt þjónusta til sjúklinga og aðstandenda heldur hefur spítalinn lögum samkvæmt hlutverki að gegna bæði í að þróa þekkingu og þjálfa og mennta heilbrigðisstarfsfólk. Lengi hefur verið rætt um það, bæði hér á landi og erlendis, að gjá sé á milli rannsókna og klínísks raunveruleika og að langan tíma taki að koma niðurstöðum rannsókna í notkun í klínísku umhverfi. Þetta er því miður oft raunin, en þó hafa mikilvæg skref verið stigin hér á landi í þessum efnum meðal annars með fjölgun hjúkrunarfræðinga sem lokið hafa meistara­ og doktorsnámi og með virku samstarfi Landspítala og Háskóla Íslands. Áhersla á notkun gagnreyndrar þekkingar í daglegu starfi eykst stöðugt en forsenda slíkrar vinnu er að byggt sé á niðurstöðum rannsókna til viðbótar við klíníska dómgreind og mat á þörfum og væntingum skjólstæðinga okkar. Rannsóknarvinnan er líka hluti af vegferð okkar í átt að sérhæfingu og eflingu sérfræðiþekkingar í hjúkrunarfræði. Í því samhengi er augljóst hvaða hlutverki rannsóknir gegna í klínísku starfi hjúkrunarfræðinga. En þó svo að það sé tiltölulega fámennur hópur sem stýrir vinnu við flestar þær rannsóknir sem við byggjum starfið okkar á þá hafa allir hjúkrunarfræðingar hlutverki að gegna. Það er hjúkrunar­ fræðingum nauðsynlegt, líkt og öðrum fagmönnum, að viðhalda og auka þekkingu sína á faginu og auka þannig faglega þróun í starfi.. Helsta vinnutæki hjúkrunarfræðingsins er hann sjálfur og sú þekking og reynsla sem hann býr yfir. Allir hjúkrunarfræðingar þurfa líka að geta nýtt klínískar leiðbeiningar og verklagsreglur sem byggja á gagnreyndri þekkingu, þar með talið niðurstöðum rannsókna. Stór hluti hjúkrunarfræðinga er svo með beinum eða óbeinum hætti virkur í þekkingarþróun sem gerir okkur kleift að veita þá öruggu og árangursríku hjúkrun sem gerð er krafa um í nútímaheilbrigðiskerfi. Klínískir hjúkrunarfræðingar gegna þannig mikilvægu hlutverki í að greina klínísk rannsóknarefni og taka þátt í vinnu við rannsóknir í stærri hópum sem stýrt er af þeim sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu. Þeir gegna gjarnan veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að finna sjúklinga sem uppfylla skilyrði fyrir rannsóknir og kynna þær fyrir sjúklingum. Hjúkrunarfræðingar gegna einnig stóru hlutverki í gæðarannsóknum, sem miða að því að bæta gæði þjónustunnar, og taka þeir oft virkan þátt í slíkum rannsóknum. Síðan má ekki gleyma því að skráning klínískra hjúkrunarfræðinga á hjúkrunarupplýsingum skapar mikilvæg rannsóknargögn sem nýst geta til að þróa þekkingu, sjúklingum til hagsbóta. Síðast en ekki síst er það hlutverk þeirra að tileinka sér nýjungar og nýta rannsóknarniðurstöður í daglegum störfum. Þekkingunni fleygir áfram og úreldist hratt. Því er mikilvægt að halda sér við fram á síðasta dag í starfi enda skiptir það sjúklinginn sem við sinnum ekki máli hvort hann hittir fyrir og þarf að reiða sig á fagmennsku þess sem er að hefja sinn starfsferil eða ljúka honum. Framtíðarsýn Til að ná árangri í rannsóknarvinnu er nauðsynlegt að saman komi sterkur hópur fagmanna með ólíka þekkingu og styrkleika. Rannsóknarvinna tekur tíma og krefst undirbúnings og nauðsynlegt er að vinna hana skref fyrir skref þar sem markvisst er byggt á því sem áður hefur verið gert. Hjúkrunarfræðingum með menntun og þjálfun í rannsóknarvinnu fer fjölgandi og við höfum alla burði til að þróa áfram þekkingu í hjúkrunarfræði sem getur nýst okkur hér á landi sem og erlendis. Nauðsynleg forsenda rannsóknarstarfs er fjármögnun og er mikilvægt að sækja í þá sjóði sem veita styrki til rannsókna. Hjúkrunarfræðingar hafa náð ágætum árangri í að afla rannsóknarstyrkja en eiga að vera duglegri að sækja um þá. Nýting rannsókna í klínísku starfi er ekki síður mikilvæg og með örum breytingum og sífelldum nýjungum reynir á hæfni okkar við að tileinka okkur þær nýjungar með breyttu verklagi. Það er ef til vill ekkert sem einkennir starf okkar hjúkrunarfræðinga betur en fjölbreytileikinn og sífelldar breytingar. Sigríður Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.